Skip to main content

Fleiri gistu á Austurlandi í júní þrátt fyrir minna framboð gistingar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. júl 2023 14:06Uppfært 31. júl 2023 14:07

Aldrei nokkurn tímann hafa fleiri gestir notið hvíldar á gistiheimilum eða hótelum á landsvísu í júnímánuði en þetta árið. Alls rúmlega 1,1 milljón gistinátta samkvæmt Hagstofu Íslands en það hvorki meira né minna en 17% aukning frá fyrra júnímánaðarmeti.

Alls reiknast stofnunni til að gistinætur á Austurlandi þann mánuð hafi alls verið 20.422 talsins eða um þremur prósentum fleiri en sama mánuð fyrir ári síðan. Þar erlendir ferðamenn í stórum meirihluta eða rétt tæplega 80% þeirra sem hvíldu höfuð á kodda á gistihúsum eða hótelum í fjórðungnum.

Athygli vekur í samantekt Hagstofunnar að framboð gistingar á Austurlandi dróst saman milli ára um heil 2,7 prósent en engu að síður tókst að nýta hvert herbergi betur um 0,5 prósent. Það einungis á Suðurlandi sem herbergjanýtingin er betri en hér fyrir austan en með tilliti til að þýska flugfélagið Condor hætti á síðustu stundu snemma í vor við reglulegt áætlunarflug til Egilsstaða vegna skorts á gistirými er sannarlega borð fyrir báru þar.

Hvergi annars staðar í landinu dróst gistiframboðið meira saman en austanlands og eru Suðurnesin næst í röðinni þar sem framboðið minnkaði um 1,3 prósent. Herbergjafjöldi á Austurlandi á gistihúsum og hótelum voru 429 í júnímánuði nú en 441 talsins í sama mánuði fyrir ári. Tekið skal fram að engar heimagistingar eru taldar með í tölum Hagstofunnar né heldur gistinætur á tjaldsvæðum.

Nánar hér.