Fleiri tunnur skýra lengri sorphirðutíma í dreifbýli Múlaþings
Tíðni sorphirðu í þéttbýlum Múlaþings verður áfram fjórar vikur fyrir allar tegundir sorps en í sveitunum skal aðeins hirða hefðbundið sorp og lífrænt á mánaðarfresti. Sex vikur skulu líða milli þess sem pappír og plast verður losað.
Sem kunnugt er, og gerð voru ítarleg skil í Austurglugganum fyrir skemmstu, eru töluverðar breytingar í farvatninu vegna sorphirðu um landið allt. Fjölga á flokkum til úrvinnslu og því samhliða verður að fjölga tunnum fyrir utan hvert íbúðarhús og fyrirtæki. Þegar er búið að dreifa fleiri tunnum í þéttbýlli kjörnum Múlaþings en það mun gerast í sveitunum á allra næstu vikum.
Eitt af því sem ákveðið var á síðasta fundi umhverfis- og framkvæmdasviðs Múlaþings fyrr í þessari viku var að auka tímann milli þess sem pappi og pappír verður hirtur úr sveitunum. Síðustu misseri hefur slíkt verið tæmt á fimm vikna fresti en verður sex vikur nú.
Aðspurð út í þetta segir Hugrún Hjálmarsdóttur, framkvæmda- og umhverfisstjóri Múlaþings, að ástæðan sé að með fjölgun sorptunna við hvert hús aukist að sama skapi heildarrúmmálið fyrir ruslið og það skýri hvers vegna tæming verði eftirleiðis viku síðar en verið hefur.
Þá urðu mistök í merkingum á mörgum þeim tunnum sem byrjað er að dreifa í dreifbýli sveitarfélagsins. Stóru 660 lítra tunnurnar voru merktar fyrir blandaðan úrgang en eiga eingöngu að notast undir pappír og pappa. Að sama skapi voru minni hefðbundnu tunnurnar undir blandaðan úrgang merktar undir pappa.Starfsmenn Íslenska gámafélagsins munu á næstunni breyta merkingum á réttan veg.