Fljótsdælingar með fyrirvara á innlimun Vatnajökulsþjóðgarðs í nýja stofnun
Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps tekur jákvætt í hugmyndir umhverfis-, orku- og loftslagsráherra, að færa rekstur Vatnajökulsþjóðgarðs undir hatt nýrrar stofnunar. Þess verði þó gætt að byggðir nærsamfélaga njóti góðs af.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kynnti fyrr í vetur áform sín um sameiningu stofnanna hins opinbera sem hefur meðal annars í för með sér að Vatnajökulsþjóðgarður mun sameinast Þjóðgarðinum á Þingvöllum, náttúruverndarsviði Umhverfisstofnunar og Minjastofnun undir heitinu Náttúruverndar- og minjastofnun.
Markmið þessarar sameiningar er að til verði stærri, kröftugri og jafnframt faglegri stofnanir, að það efli fræða- og þekkingarsamfélagið, fjölgi störfum á landsbyggðinni en óháð staðsetningu og tryggi aðkomu nærsamfélaga að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum.
Fram kom í yfirferð ráðuneytisins vegna þessa að „endanleg afstaða hafi ekki verið tekin til staðsetningar höfuðstöðva þessara nýju stofnunar en með tilliti til byggðasjónarmiða sé lögð mikil áhersla á fjölgun starfa á landsbyggðinni.“
Á síðasta sveitarstjórnarfundi Fljótsdalshrepps voru þessar hugmyndir reifaðar og jákvætt tekið í þær með þeim fyrirvara þó að miklu muni skipta hvernig málið verður útfært endanlega í lagafrumvarpi:
„Vatnajökulsþjóðgarður býr við dreifistýrt skipulag sem reynst hefur vel í seinni tíð og tryggir aðkomu nærsamfélaga að stjórnun og vernd þjóðgarðsins. Nýta ber öll tækifæri sem skapast samhliða stofnanasameiningu til þess efla byggðir umhverfis þjóðgarðinn m.a. með störfum í nærsamfélagi.“
Óvíða er nándin við Vatnajökulsþjóðgarð meiri en í Fljótsdalnum en framundan er töluverðar breytingar á rekstri garðsins ef Guðlaugur Þór fær sínu framgengt. Mynd GG