Fljótsdælingar skoða grundvöll fyrir sínu eigin minjasafni
Á síðasta sveitarstjórnarfundi Fljótsdalshrepps var sveitarstjóranum falið að kanna grundvöll undir að hreppurinn stofni sitt eigið minjasafn. Það nánast strax í kjölfar formlegra slita byggðasamlags Fljótsdalshrepps og Múlaþings um Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum.
Athygli hefur vakið hve fljótt eftir slitin Fljótsdælingar fóru að lýsa áhuga á uppbyggingu síns eigin safns á heimaslóð en það á að stórum hluta til rætur að rekja til þess að sveitarstjórnin var ekki ýkja hrifin af slitum á fyrrnefndu byggðasamlaginu. Það ferli var allt að áeggjan Múlaþings sem sótti breytingar á samlaginu nokkuð hart síðustu árin. Ástæðan sögð að með yfirtöku Múlaþings á safninu yrði allir rekstur þess bæði einfaldari, hagkvæmari og þar af leiðandi betri. Í því ferli var hins vegar ekki mikið tillit tekið til þess að ýmsir af allra áhugaverðustu munum Minjasafns Austurlands koma beint úr Fljótsdal en lesa má um allt um stofnun og sögu safnins hér.
Aðspurður um stöðuna segir Helgi Gíslason, sveitarstjóri, að allt sé á byrjunarstigi að svo stöddu:
„Þetta er bara svona tilraun til að átta okkur á stöðunni eftir þessi slit á byggðasamlaginu. Hugmyndin er að taka stöðuna í stóru myndinni og hvað við getum gert til að annahvort bæta stöðuna eða beinlínis stofna eitthvað nýtt sem gæti gagnast sveitarfélaginu. Þetta er svona greiningarvinna sem gera þarf en mörgum þykir ljóst að þetta geti skapað fjölmörg tækifæri í Fljótsdalnum í framtíðinni. Marga athyglisverða muni úr Fljótsdal er að finna á Minjasafni Austurlands og safn þeirra muna á okkar eigin svæði yrði enn ein lyftistöng fyrir ferðaþjónustu í hreppnum.“
Þó hreindýr séu mun víðar en í Fljótsdalshreppi eru fjölmargir aðrir forvitnilegir munir úr Fljótsdalshreppi til sýnis á Minjasafni Austurlands á Egilsstöðum. Mynd Múlaþing