Fljótsdælingar stofna eigin vatnsveitu

Síðla síðasta mánaðar samþykkti sveitarstjórn Fljótsdalshrepps að stofnuð yrði sérstök vatnsveita fyrir sveitarfélagið, Fljótsorka, en þörfin á því er tilkomin vegna áforma um uppbyggingu byggðakjarna í dalnum.

Tilgangur nýrrar vatnsveitu verður að afla, selja og veita vatni þar sem þörf er á í hreppnum auk þess að reka alla þá starfsemi sem því tengist. Veitunni verður heimilt að leita að heitu vatni og setja á stofn hitaveitu finnist það í nýtanlegu magni. Veitunni verður heimilt að stofna framkvæmdasjóð ef hentugt þykir til undirbúnings kostnaðarsamra framkvæmda við uppbyggingu hennar.

Lárus Heiðarsson, oddviti Fljótsdalshrepps, segir stofnun vatnsveitu ekkert einfalt mál en hjá því verði ekki komist ef fjölga á íbúum í hreppnum eins og fyrirhugað er. Búið er að skipuleggja lóðir fyrir alls átján einbýlishús, þremur parhúsum og tveimur undir frístundahús í landi Hamborgar.

„Það segir sig sjálft að ef við ætlum okkur að fara að byggja íbúakjarna þá þarf að hafa nægt vatn til staðar. Reyndin er líka að vatn hefur verið vandamál að fá hér á stöku stöðum á tímum eins og hitasumarið 2021 þegar ekki rigndi neitt í eina tvo mánuði eða svo. Vatnið er grundvallaratriði ef fjölga á fólki hér þannig að stofnun vatnsveitu var samþykkt af hreppsstjórn um daginn.“

Hreppurinn hefur notið aðstoðar sérfræðinga um tíma til vatnsleitar innan hreppsmarka en án árangurs hingað til.

„Við þegar fengum töluverða aðstoð og meðal annars frá sérfræðingum HEF-veitna við að leita vatns hér á svæðinu og það verið töluvert víða leitað bæði í sprungum í fjöllunum og eins á eyrunum hér fyrir neðan fyrirhugaða íbúðabyggð. Það hefur ekkert fundist að ráði en þó eru sérfræðingarnir nokkuð vissir um að hér er vatn að finna einhvers staðar. Ég á von á að við leitum meira á næstunni við eyrarnar því það svæði þykir nokkuð vænlegt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.