Fljótsdalshérað er enn eitt besta skógræktarsvæði landsins

Hópur starfsfólks Skógræktarinnar, nú Lands og skóga, ferðast um landið á hverju ári til að leggja út mælifleti í Landsskógarúttekt. Með henni á að kortleggja bæði ræktaða og villta skóga. Slíkar upplýsingar nýtast meðal annars við að áætla kolefnisbindingu landsins. Verkefnið fagnar í ár 20 ára afmæli sínu.

Tæknilega fer Landsskógarúttekt þannig fram að starfsfólk rannsóknarsviðs Skógræktarinnar leggur út mælifleti í skógum landsins á tilviljunarkenndan hátt. Að fimm árum liðnum er hver slíkur reitur heimsóttur að nýju og þar framkvæmdar skógmælingar, mælingar á botngróðri auk annarra rannsókna.

Það er með þeim hætti, að sögn Björns Traustasonar, verkefnastjóra landupplýsinga, sem hægt er að fylgjast náið með framþróun skógræktar í landinu og þar með talið kolefnisbindingu þeirra en nú eru í heild yfir eitt þúsund slíkir mælifletir.

„Í einföldu máli þá erum við að mæla hæð og þvermál trjáa á hverjum mælifleti. Þvermálið er auðvitað breiddin á stofninum en það eru í gildi sérstakar reglur um hvar eigi að mæla eftir hæð stofnsins. Með þær upplýsingar að vopni getum við með aðstoð viðurkenndra reikniaðferða reiknað út hvað hvert tré er að binda á hverjum stað fyrir sig.

Með þessum hætti fæst ágæt mynd af þróuninni á landsvísu. Þetta höfum við gert allar götur frá árinu 2004 svo að á næsta ári eigum við upplýsingar 20 ár aftur í tímann,“ sagði Björn er Austurglugginn/Austurfrétt hitti á hann við mælingar á Austurlandi í lok síðasta sumars.

Hvað er gott skógræktarsvæði?


Aðspurður hvað skilji á milli góðs eða hentugs skógræktarsvæðis og þeirra svæða sem verr henta undir skógrækt segir Björn tvennt sérstaklega skipta þar máli.

„Það er annars vegar almennt hitastig á vaxtartíma á vorin og hins vegar umhleypingar að vetri til. Héraðið á Austurlandi er án alls vafa í hópi allra bestu skógræktarsvæða landsins. Það skýrist almennt af ágætu hitastigi snemmsumars yfir helsta vaxtartímann en ekki síður sökum þess að það hefur ekki verið ýkja umhleypingasamt þar að vetrarlagi svona almennt séð. Lerkið til dæmis þolir illa miklar veðrabreytingar yfir köldustu mánuðina.

Það eru reyndar vísbendingar um að þetta sé aðeins að breytast á Austurlandinu, en enn sem komið er er Héraðið í hópi þeirra fjögurra svæða sem hvað besta henta til skógræktar í landinu öllu, að teknu tilliti til hitabreytinga og veðurfars almennt. Hin þrjú eru Borgarfjörður, Eyjafjörður og ákveðin svæði á Suðurlandinu.“

Þegar forvitnast er um hvort tré á sumum svæðum landsins séu að binda meira en önnur segir Björn það vera líklegt, en til að fá úr slíku skorið þurfi mælisvæðin að vera mun fleiri en þessi þúsund sem miðað er við í dag. Í dag gangi verkefnið út á að fá nægar mælingar á landsvísu.

Þetta landsskógarverkefni Skógræktarinnar hefur skilað verulegum upplýsingum um nánast öll þau svæði landsins þar sem einhvers konar skóga er að finna. Þeim upplýsingum er strax komið í sérstaka vefsjá Skógræktarinnar en þar geta áhugasamir séð með berum augum hvar skóglendi finnst í landinu og fylgst með hvernig gengur að fylla minnst 5 prósent landsvæðis í öllum fjórðungum af trjám eins og opinber stefna er.

Mynd: Skógræktin

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.