Fljótsdalshérað leitar álits íbúa sinna
„Við köllum þetta spjallfundi þar sem þetta er bara óformlegt allt saman og kaffi og kleinur með,“ segir Óðinn Gunnar Óðinsson, skrifstofustjóri heimastjórnar Fljótsdalshéraðs.
Fyrirhugaðir eru þrír íbúafundir á þremur mismunandi stöðum í héraðinu en þar vill heimastjórnarfólk gjarnan hitta sem flesta og fá þeirra álit á því sem betur má fara í daglegu lífi og heimastjórn getur haft áhrif á.
Hugsað er að fyrirkomulagið verði svipað og á bæjarstjórnarbekknum sem hefð var fyrir á Héraði fyrir heimsfaraldur. Þar geta íbúar borið upp spurningar og komið á framfæri erindum sem fara til frekari úrvinnslu hjá sveitarfélaginu.
Fyrr í þessum mánuði stóð heimastjórnin fyrir opnum íbúafundi á Egilsstöðum en nú er haldið út í dreifbýlið.Fundað verður í í Brúarási í dag frá 16:30 til 18, félagsheimilinu Arnhólsstöðum á morgun á sama tíma og síðar þann dag í gamla barnaskólanum að Eiðum milli 20 og 21:30. Þótt fundirnir séu haldnir á þessum stöðum er öllum íbúum Fljótsdalshéraðs velkomið að mæta.
Óðinn segir þetta lið í því að bæta þjónustu sveitarfélagsins og ábendingar frá íbúum er stór þáttur í slíku. Lengi hafi staðið til að halda slíka fundi en Covid-faraldurinn gert mönnum erfitt um vik.