Fljótsdalshreppur gengur úr byggðasamlagi Minjasafns Austurlands
Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps hefur tekið þá ákvörðun að ljúka samstarfi sínu við Múlaþing varðandi byggðasamlagið Minjasafn Austurlands en það samstarf hefur verið við lýði formlega allar götur frá árinu 1995 og óformlega miklu lengur en það.
Þessi ákvörðun var tekin á síðasta sveitarstjórnarfundi Fljótsdalshrepps í síðustu viku en legið hefur í loftinu um langa hríð að slíta beri þessu samstarfi um sameiginlegan rekstur Minjasafnsins. Var það að stórum hluta að tilstuðlan Múlaþings sem lagði það til fyrir nokkru að slíta byggðasamlaginu og færa réttindi og skyldur vegna þess yfir á Múlaþing.
Liggja nú þegar fyrir drög að samningi um slit af þeirra hálfu en Fljótsdælingar vilja gera þar breytingar á. Fram kom á fundi þeirra að að mikilvægt sé að fram komi í samningnum að Múlaþing hafi haft frumkvæði að því að binda enda á samstarfið og af þeim sökum sé vænlegri leið fyrir Fljótsdalshrepp að ganga úr samlaginu í stað þess að slíta því.
Þar sömuleiðis samþykkt að skýr ákvæði verði í samningnum um að ef til þess kemur að Fljótsdalshreppur stofni sitt eigið minja- eða byggðasafn í framtíðinni eigi sveitarfélagið skýran rétt á að fá til sín þá muni Minjasafnsins sem uppruna sinn eiga í Fljótsdalnum.