Fljótsdalslína 2 úti vegna mikillar ísingar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. nóv 2023 10:51 • Uppfært 06. nóv 2023 10:53
Fljótsdalslína 2, sem flytur rafmagn milli Hryggstekks í Skriðdals og Fljótsdalsstöðvar, var tekin út í gærkvöldi vegna mikillar ísingar. Við þá aðgerð fannst bilun sem verið er að gera við. Á meðan er línan úti.
Landsnet sendi á laugardag frá sér viðvörun þar sem hætta var talin á að ísing myndi hlaðast á raflínur á Norður- og Austurlandi. Sú spá gekk eftir því mikil ísing hlóðst á Fljótsdalslínu 2 eins og þekkt er á Hallormsstaðarhálsi.
Í gærkvöldi var rafmagn tekið af línunni til að hægt væri að hreinsa af henni á hálsinum. Þá kom í ljós að bugt var brotin. Aðstæður voru erfiðar, mikið kóf og ekkert skyggni þannig ákveðið var að bíða með viðgerð þar til í dag.
Starfsmenn Landsnets fóru upp á hálsinn í morgun og eru þar að störfum. Aðstæður eru hins vegar enn erfiðar og skyggni lélegt. Línan er úti þar til viðgerð er lokið.
Það hefur ekki enn áhrif á almenna afhendingu raforku en byggðalínuhringurinn er viðkvæmari, ekki síst þar sem lína milli Akureyrar og Hólasands er einnig úti vegna ísingar. Bilunin hefur engin áhrif á álverið á Reyðarfirði sem fær rafmagn um Fljótsdalslínur 3 og 4.
Mynd: Landsnet