Skip to main content

Flug til og frá Egilsstöðum kemur til greina hjá Niceair

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. feb 2022 18:49Uppfært 17. feb 2022 19:00

„Það er alveg hundrað prósent á borðinu að beint flug til og frá Egilsstöðum sé inni í myndinni ef það tekst vel upp með þetta verkefni okkar,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, viðskiptafræðingur og nú framkvæmdastjóri flugfélagsins Niceair.

Niceair er glænýtt millilandaflugfélag sem frá júní næstkomandi mun bjóða beint flug frá Akureyri til nokkurra áfangastaða í Evrópu á „mjög samkeppnishæfu verði“ eins og Þorvaldur kemst að orði í samtali við Austurfrétt.

Tæknilega er þetta ekki íslenskt flugfélag sökum þess að flugrekstrarleyfið er í höndum erlendra aðila en eingöngu verður flogið til og frá Akureyri til nokkurra staða í Evrópu frá og með júnímánuði og aðeins ein vél í rekstri til að byrja með. Mun þetta verða þriðja flugfélagið/ferðasalinn sem flýgur beint til Akureyrar frá Evrópu og vitaskuld öfugt líka næsta sumar.

„Við erum að fara mjög varfærnislega inn í þetta enda hefur undirbúningurinn tekur rúm tvö ár,“ segir Þorvaldur. „Sem dæmi þá erum við að gera ráð fyrir að vélin fljúgi hálftóm í viðskiptaáætlunum okkar og ef það verður raunin gengur dæmið samt upp.“

Bókunarsíða Niceair fer í loftið um mánaðarmót mars/apríl en Þorvaldur fullyrðir að það muni ekki kosta meira fyrir Austfirðinga að skottast til Akureyrar og fljúga þaðan út í heim með Niceair en að þvælast suður til Keflavíkur og fljúga þaðan með tilheyrandi tíma og kostnaði.

Framkvæmdastjórinn er ekki í vafa um að Austfirðingar muni nýta sér bein flug til vinsælla staða í Evrópu frá Evrópu í framtíðinni og raunar gera áætlanir flugfélagsins ráð fyrir að einhver hluti fólks á Austurlandi kjósi fremur að aka til Akureyrar og taka þaðan flugið en að fljúga suður og aka til Keflavíkur.

Aðspurður um hvort Niceair geti hugsað sér, ef vel gengur í byrjun, að bjóða líka bein áætlunarflug frá Egilsstöðum segir Þorvaldur það sannarlega koma til greina.

„Engin spurning. Við vitum reyndar að í tilfellum verður um beint flug að ræða til Egilsstaða en ekki Akureyrar því Akureyrarflugvöllur er erfiður á köflum og við gætum þurft að lenda á Egilsstöðum í staðinn við tilteknar aðstæður. En hugmyndin með Niceair er að dekka bæði Norðurland og Austurland og það er hundrað prósent uppi á borði að fljúga ennfremur beint frá Egilsstöðum ef byrjunin gengur jafn vel og við vonumst til.“