Skip to main content

Flugvél Wizz beint til Egilsstaða vegna manneklu í stjórnstöð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. ágú 2025 14:14Uppfært 22. ágú 2025 14:15

Þotu ungverska flugfélagsins Wizz Air á leið frá Mílanó til Íslands í gærkvöldi var beint til Egilsstaða þar sem lokað var fyrir almenna flugumferð um Keflavíkurflugvöll vegna skorts á starfsfólki í flugstjórnarmiðstöð.


Vélin lenti á Egilsstöðum um klukkan tíu í gærkvöld. Þar stoppaði hún í tæpa klukkustund áður en hún hélt aftur til Keflavíkur og lenti þar um klukkan hálf tólf, rúmum fimm tímum eftir upphaflegan komutíma.

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia komu upp veikindi hjá starfsmönnum Isavia ANS, dótturfélagi Isavia sem sér um flugumferðarstjórn. Fyrr um daginn var gefin út svokölluð NOTAM-tilkynning, sem flugmönnum er uppálagt að kynna sér. Þar kom fram að Keflavíkurflugvöllur yrði lokaður fyrir almennu aðflugi milli klukkan 22 og 23 í gærkvöldi.

Mikil seinkunn í Mílanó


Vandræði Wizz-vélarinnar skýrast ekki bara af manneklu heldur keðjuverkandi töfum. Vélin gerir út frá Mílanó og flaug fyrstu ferð dagsins til og frá Varsjá án vandkvæða. Í næstu ferð, til Valencia, var hún hins vegar klukkustund of sein í loftið. Flugið til baka gekk eðlilega.

Vélin átti síðan að fara í loftið til Keflavíkur klukkan 15:50 en fór ekki fyrr en 19:46. Áætlaður komutími hennar til Keflavíkur var því um klukkan 22:00.

Miðað við feril vélarinnar virðast flugmenn vélarinnar annað hvort hafa áttað sig á lokuninni á leiðinni eða orðið það ljóst að þeir næðu ekki til Keflavíkur í tæka tíð. Um klukkan 21:20 tekur vélin svo að segja vinkilbeygju til Egilsstaða, en hún var þá stödd suður af Hornafirði. Vélin tók síðan einn hring yfir Hallormsstað áður en hún kom inn til lendingar.

Til stóð að hún færi eina ferð til viðbótar í gærkvöldi, í fyrsta lagi aftur til Mílanó og þaðan fram og til baka frá Barcelona. Áhöfnin virðist hins vegar hafa þurft í hvíld því vélin á ekki að fara frá Keflavík fyrr en 15:30 í dag.