Flugvélin flutt suður
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 11. júl 2023 11:45 • Uppfært 11. júl 2023 12:06
Flugvélin sem brotlenti á Hraunasvæðinu milli Fljótsdals og Skriðdals á sunnudag var flutt þaðan niður í gærkvöldi og er á leið suður til frekari rannsóknar.
Rannsókn lögreglunnar á Austurlandi og Rannsóknarnefndar samgönguslysa (RNSA) á vettvangi telst lokið. Flugvélin brotlenti við Sauðahnjúka, milli Hraungarða og Hornbrynju, seinni part sunnudags. Þrír einstaklingar fórust í slysinu.
Vélin fannst klukkan sjö á sunnudagskvöld, tveimur tímum eftir að neyðarboð bárust frá henni. Fólkið var allt úrskurðað látið á staðnum.
Rannsókn á tildrögum slyssins hófst strax og stóð fram undir morgunn daginn eftir. Henni var haldið áfram seinni partinn í gær.
Þegar vettvangsrannsókninni taldist lokið var flugvélin flutt af slysstað með aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar niður á vörubíl í Suðurdal Fljótsdals. Þaðan verður hún flutt í húsakynni RNSA á höfuðborgarsvæðinu.
Samkvæmt tilkynningu lögreglunnar eru orsakir slyssins enn óþekktar. Frekari gögnum verður safnað og unnið úr þeim en óljóst hve langan tíma það tekur.
Boðað hefur verið til minningarstundar um fólkið sem lést í slysinu í Egilsstaðakirkju í dag klukkan 18:00. Þá er samráðshópur almannavarna um áfallahjálp til taks en að honum standa félagsþjónustur sveitarfélaganna, Heilbrigðisstofnun Austurlands og prestarnir á svæðinu.
Mynd: Aðsend