Flutningaskip strandaði í Gleðivík

Flutningaskipið Scanbio Viking strandaði í Innri-Gleðivík á Djúpavogi á laugardagsmorgunn. Skipið losnaði á flóði og var dregið að bryggju með beltagröfum. Skrokkur þess er í lagi en skrúfa og stýri löskuð.

Skipið strandaði klukkan 8:20 á laugardagsmorgun. Samkvæmt upplýsingum Austurfréttar lenti skipið út úr stefnu sinni inn í innsiglinguna í Gleðivík. Skipstjórinn var nýr um borð og hafði ekki áður komið til Djúpavogs.

Hann reyndi fyrst að bakka skipinu út úr vandræðunum en hliðarvindur varð til þess að áhöfnin missti stjórn á skipinu með þeim afleiðingum að það lenti í grynningum austan til í Gleðivíkinni.

Dráttarbátar frá Reyðarfirði og Höfn í Hornafirði voru kallaðir út auk þess sem varðskipið Freyja sigli í austur úr Helguvík. Um hálftími var í háfjöru þegar strandið varð en fljótt varð ljóst að skipið myndi trúlega losna á flóði og aðstoðin sem kallað var eftir yrði ekki komin á Djúpavog þá.

Því voru fengnar tvær 40 tonna beltagröfur niður að bryggjunni í norðanverðri Gleðivíkinni. Togi var komið frá þeim í stafn og skut skipsins. Þær drógu skipið af strandstað og yfir víkina þegar flæddi. Þjónustubátur frá Fiskeldi Austfjarða studdi við og stýrði vélarvana skipinu rétta leið. Það var komið að bryggju rétt eftir klukkan 13.

Veðrið var gott meðan aðgerðum stóð og aldrei hætta á ferðinni fyrir áhöfn eða björgunaraðila. Vinna á vettvangi gekk vel. Scanbio Viking er skráð í Danmörku en er í eigu Scanbio Logistics sem er norskt og sérhæft í þjónustu við fiskeldi. Það var á leið til Djúpavogs að sækja meltu frá fiskeldinu þar.

Kafari skoðaði skipið á laugardag. Dældir eru á skrokki en hvergi leki. Stýri skipsins og skrúfa eru hins vegar skemmd. Skipið er sem stendur við bryggju í Gleðivík. Eftir er að meta ástand þess nánar en búist er við að það verði dregið frá Djúpavogi í þurrkví til viðgerða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.