Fögnuðu 400. fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. ágú 2025 18:41 • Uppfært 21. ágú 2025 18:42
Haldið var upp á það að fundur bæjarstjórnar Fjarðabyggðar í dag var númer 400 í röðinni síðan sveitarfélagið varð til árið 2006. Jón Björn Hákonarson, núverandi forseti bæjarstjórnar, hefur setið yfir 300 af fundunum.
Fyrsti bæjarstjórnarfundurinn var haldinn 13. júní árið 2006 að Sólbrekku í Mjóafirði. Fyrsta Fjarðabyggð varð til árið 1998 með sameiningu Neskaupstaðar, Eskifjarðarkaupstaðar og Reyðarfjarðarhrepps en árið 2006 tók sameining við Austurbyggð, Fáskrúðsfjarðarhrepp og Mjóafjarðarhrepp gildi. Sveitarfélagið stækkaði svo enn frekar með sameiningu við Breiðdalshrepp árið 2018.
Guðmundur Rafnkell Gíslason var fyrsti forseti bæjarstjórnar hins sameinaða sveitarfélags. Árið 2010 tók Jón Björn Hákonarson við og gegndi embættinu til 2020 en hann tók aftur við því árið 2024. Jón Björn hefur setið yfir 300 af bæjarstjórnarfundunum.
Eydís Ásbjörnsdóttir var forseti 2020-22, þá Hjördís Helga Seljan og loks Birgir Jónsson 2023. Helga Jónsdóttir var bæjarstjóri 2006-10, Páll Björgvin Guðmundsson 2010-18, Karl Óttar Pétursson 2018-20, Jón Björn 2020-23 og loks Jóna Árný Þórðardóttir frá 2023.
Boðið var upp á súkkulaðitertu með áprentaðri mynd af bæjarstjórninni í lok fundarins í dag á meðan farið var yfir fundargerðina.
Fundurinn í dag var sá fyrsti eftir sumarfrí og snérist aðallega um að staðfesta fundargerðir bæjarráðs, sem fer með fullnaðarafgreiðslu mála meðan bæjarstjórn er í fríi. Ekki tóku aðrir til máls en formaður bæjarráðs og formenn nefnda sem fylgdu eftir fundargerðum enda tók fundurinn innan við 20 mínútur.
Meðal þess sem staðfest var á fundinum í dag var ákvörðun bæjarráðs um að bjóða út sorphirðu í sveitarfélaginu en ráðið staðfesti á fundi sínum á mánudag útboðsgögn og fól bæjarstjóra að hefja útboðsferli. Einnig var farið yfir stöðuna á nýrri heimasíðu sem er verið að vinna fyrir Fjarðabyggð og er að verða tilbúin.