Fögnuðu 50 ára afmæli ferjusiglinga til Seyðisfjarðar
Síðdegis í gær var því fagnað að rétt tæp 50 ár eru liðin síðan ferjusiglingar hófust til Íslands fyrsta sinni en þar auðvitað um að ræða fyrstu ferð hins færeyska skips Smyrils til Seyðisfjarðar þann 12. júní 1975.
Af þessu mikla tilefni buðu forsvarsmenn skipafélagsins Smyril Line á Íslandi í hóf um borð í Norrænu þar sem skipið lá við bryggju á Seyðisfirði í blíðviðri í gær. Þangað var boðið sveitarstjórnarfólki víða af Austurlandi, nokkrum þeim einstaklingum á Seyðisfirði sem harðast unnu við að koma þessum siglingum á á sínum tíma auk annarra velunnara fyrirtækisins.
Nokkra athygli og gagnrýni vakti þó meðal gesta að hvorki mættu yfirmenn frá færeyska skipafélaginu til hófsins né heldur samgönguráðherra eða nokkur einasti þingmaður kjördæmisins þó öllum væri þeim boðið. Tilefnið þó ærið enda stórt blað brotið í samgöngusögu landsins alls þegar ferjusiglingarnar hófust.
Ný ferja á næstu árum
Skipst hefur nokkuð milli skins og skúra í rekstri Smyril Line á þessum 50 árum en í dag stendur fyrirtækið afar sterkt. Svo sterkt að á næsta ári verða tvö glæný fraktskip tekin í notkun að sögn Óskars Sveins Friðrikssonar, framkvæmdastjóra Smyril Line Ísland. Vonir standa ennfremur til að innan fárra ára verði hægt að fara í smíði á nýrri, stærri og enn glæsilegri Norrænu en nú siglir og hefur gert síðustu áratugi.
Bæjarstjórnarmenn heiðraðir
Að undirbúa komu ferju til fámenns Seyðisfjarðar á sínum tíma var ekki lítið verk heldur og í mörg horn þurfti að líta af hálfu heimamanna til að allt gengi snurðulaust fyrir sig. Yfir það fór Þorvaldur Jóhannsson, sem sat í bæjarstjórn Seyðisfjarðar á þessum tíma og varð síðar bæjarstjóri. Eftirlifandi fólk úr bæjarstjórn á þessum tíma fékk afhenda blómvendi af þessu tilefni af hálfu Múlaþings.
Bæði bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Jóna Árný Þórðardóttir, og sveitarstjóri Múlaþings, Dagmar Ýr Stefánsdóttir, héldu tölu af þessu tilefni og minntust á hve miklu það skipti Austurland að vera komin með sterka og áreiðanlega tengingu út í heim. Slíkt hefði óumdeilanlega verið mjög til góðs og ekki bara fyrir Seyðfirðinga heldur aðra Austfirðinga og landsmenn alla.
Aðeins fjórir eru eftirlifandi af níu manna bæjarstjórn Seyðisfjarðar 1975. Þrír þeirra komust á hófið í gær og var fólkið heiðrað sérstaklega með blómvöndum. Slík vendi fengu jafnframt tveir yfirmanna Smyril Line Ísland. Mynd AE