Fögnuðu stóráfanga vestanmegin Stuðlagils
Það var bros á vörum fjölmargra sem gerðu sér ferð að bænum Grund við Stuðlagil síðdegis í gær í blíðskaparveðri. Þar var safnast saman til að fagna því að lokið hefur við veigamiklar breytingar ofan gilsins til að auðvelda aðgengi að þessari austfirsku náttúruperlu en ekki síður til að tryggja öryggi þeirra ferðamanna sem staðinn sækja.
Töluvert er síðan ljóst varð að grípa þyrfti til ráðstafana við gilið þegar þangað hófu þúsundir gesta að mæta í kjölfar auglýsinga og sjónvarpsefnis um þetta magnaða stuðlabergsgil sem fáir vissu af fyrr en Kárahnjúkastífla var tekin í notkun og vatnsmagn Jöklu minnkaði til muna.
Fjöldinn, sem jókst hröðum skrefum báðum megin gilsins, það mikill að gróður fór að láta á sjá auk þess æði margir ferðamenn fóru sér reglulega að voða til að komast sem næst gilinu og taka sem flottastar myndir. Vestanmegin sérstaklega er töluverður bratti niður að gilinu og þrátt fyrir uppsetningu á löngum stiga beint niður á útsýnispall árið 2020 héldu margir gestir áfram að príla annars staðar upp og niður.
Stórbætt aðgengi
Nú er hins vegar búið að setja upp viðamikið stígakerfi að auki um alla brekku ofan gilsins með fjölmörgum útsýnispöllum sem gera auðvelt að fá mismunandi sjónarhorn ofan í gilið. Tveir pallanna aðgengilegir fólki í hjólastól eða öðrum þeim er bágt eiga með gang sem illa gat virt sjónarspilið fyrir sér áður. Öll handriðin eru þykkir járnkaplar sem enn frekar sporna gegn því að fólk prófi að þvælast um utan göngustíganna.
„Þetta stór stund,“ sagði Stefanía Karlsdóttir, einn landeigenda Grundar, en gestum var boðið upp á kaffi og meðlæti af tilefninu. „Nú er búið að tryggja öryggi gesta eins og hægt er og á snyrtilegan hátt sem fellur að umhverfinu en jafnframt gefa fólki tækifæri til að skoða gljúfrið frá nokkrum mismunandi sjónarhornum. Þetta í viðbót við að hér er kominn góður vísir að öflugri þjónustumistöð með salernum, veitingavagni og handverksverslun fyrir utan gistimöguleika, gott tjaldsvæði og fjölmörg bílastæði, hefur verið draumur lengi og allt hefur það raungerst nú.“
Austanmegin gilsins er einnig unnið að lagfæringum og uppsetningu göngustíga og handriða fyrir þann hóp sem velur þann kostinn en mikil vinna er þar enn eftir.
Einn hluti nýja stígakerfisins en eftirleiðis geta gestir vitnað Stuðlagilið frá allmörgum mismunandi sjónarhornum og nálægð án þess að fara sér að voða. Mynd AE