Fólksfjölgun alls staðar á Austurlandi á árinu sem er að líða
Íbúum hefur fjölgað í öllum sveitarfélögum Austurlands samkvæmt nýjustu mannfjöldatölum Hagstofu Íslands frá því í september. Athygli vekur að íbúafjöldi í Múlaþingi var orðinn nákvæmlega sá sami og fjöldi íbúa í Fjarðabyggð í þeim mánuði.
Austurfrétt óskaði eftir nýjustu upplýsingum um mannfjölda á Austurlandi hjá Hagstofu Íslands en þær upplýsingar alla jafna aðeins aðgengilegar á netinu frá byrjun hvers árs. Í ljós kemur að íbúum hefur farið fjölgandi í öllum fjórum sveitarfélögunum austanlands samkvæmt tölum stofnunarinnar frá septembermánuði en árstölur yfirstandandi árs verða birtar um mánaðarmótin janúar, febrúar á nýju ári.
Á þeim tíma hafði íbúum í Fjarðabyggð fjölgað um 88 alls frá áramótum og þeir í heildina 5.350 talsins. Í Múlaþingi hafði fjölgunin orðið nokkuð meiri eða um 142 einstaklinga og íbúafjöldi Múlaþings því nákvæmlega sá sami og í Fjarðabyggð eða 5.350 alls.
Árið 2022 fækkaði íbúum í Fljótsdal úr 103 í 96 en tekist hefur að snúa þeirri þróun nokkuð við því þar voru skráðir til heimilis hundrað einstaklingar samkvæmt síðustu tölum. Sömleiðis hefur fjölgun orðið í Vopnafirði en þar bjuggu 670 manns í september en voru 661 í byrjun ársins. Alls hafði íbúum fjölgað í öllum fjórðungnum síðastliðinn september um 243 einstaklinga.