Skip to main content

Formfestu breyttar reglur um leikskólaþjónustu í Fjarðabyggð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. mar 2025 11:39Uppfært 04. mar 2025 11:46

Meirihluti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar samþykkti á síðasta fundi sínum uppfærð drög að nýjum reglum sveitarfélagsins vegna þeirra breytinga sem samþykktar voru á leikskólaþjónustu í sveitarfélaginu fyrr í vetur. Eins og þá var raunin sátu fulltrúar Fjarðalistans hjá við afgreiðslu málsins.

Breytingarnar eru afrakstur vinnu sérstaks starfshóps sem Fjarðabyggð kom á laggirnar í fyrra til að endurskoða og straumlínulaga alla leikskólaþjónustu. Allnokkrar deilur spunnust um málið fyrr í vetur, sérstaklega vegna gjaldskrárbreytinga sem samþykktar voru af meirihlutanum en minnihlutinn lagðist hart gegn, eins og meðal annars má lesa má um hér.

Bæjarfulltrúar minnihlutans í Fjarðalistanum ítrekuðu á fundinum sömu afstöðu sína og áður hafði komið fram og sátu því hjá við afgreiðslu málsins.

Nauðsynlegar breytingar

Ragnar Sigurðsson, Sjálfstæðisflokki, tók í máli sínu saman helstu punkta vegna málsins hingað til:

„Við erum auðvitað að breyta reglunum til samræmis við þær gjaldskrárbreytingar sem við gerðum í kjölfar þess að starfshópur sá um breytingar á leikskólamálum skilaði af sér. Eins og fram kemur í minnisblaðinu og í fundargerðum um leikskólamálin þá var orðið nauðsynlegt að bregðast við og hér er verið að taka inn þær breytingar sem voru gerðar bæði á gjaldskránni og með skráningardögunum sem við höfum áður fjallað hér um og afstaða Fjarðalistans hefur komið fram þegar við lækkuðum skráningardagana til að koma til móts við bæði sjónarmið Fjarðalistans og íbúa sem töldu að við værum að taka of stórt skref í gjaldskrárbreytingum. Við ákváðum að bregðast við þeim athugasemdum og lækka þá upphæð. Jafnframt er verið að setja hér inn í reglurnar, sem var ekki fyrir, að gjöld verða fellt niður í þann tíma sem leikskólar loka hvort sem það er vegna manneklu, verkfalla eða annarra ófyrirséðra aðstæðna. Það er að segja ef að lokunin er hálfur dagur eða lengur. Þarna er verið að formfesta það í reglum sveitarfélagsins og ég held að þessar reglur séu af hinu góða. Það kemur fram í minnisblaðinu auðvitað, sem endurspeglar þá vinnu sem að allir flokkarnir stóðu saman að í starfshópnum og bókuðu meðal annars að það yrði að bregðast við því sem að leikskólastjórar höfðu um árabil kallað eftir. Þær aðgerðir sem styðja við þá sívaxandi áskorun að viðhald faglegu leikskólastarfi og mæta þar þeim kjarasamningsbundnu réttindum starfsmanna.“

Áhrifin verði metin

Fulltrúi Fjarðalistans, Stefán Þór Eysteinsson, taldi að ákveða þyrfti með hvaða hætti afleiðingar og áhrif breytinganna gætu haft til skemmri og lengri tíma:

„Eitt kannski sem má ekki gleymast í umræðunni er að eitt af því sem var í umræðunni var að mælikvarðinn sem við ætlum að nota til að meta árangurinn. Það var kannski ekki formfest né rætt en ég held sé mikilvægt að það verði og við gerum okkur grein fyrir því að hvaða mælieiningar við ætlum að nota til að meta árangurinn. Það er líka mikilvægt til að við getum séð í raun og veru hver árangurinn af þessu er. Því eins og við höfum bent á er hætta á því að þau geti orðið ansi víð í samfélaginu. Við höfum séð hvernig Akureyringar hafa gert þetta og Kópavogur sem hafa einblínt nokkuð á starfsfólkið sem er gott og gilt. En við þurfum auðvitað að víkka út aðeins meira hvernig við áttum okkur á þessum samfélagslegu áhrifum sem geta orðið af svona þannig að það er mikilvægt að við höfum það í huga með framhaldið.“

Fyrir sitt leyti taldi fulltrúi Sjálfstæðisflokks ljóst að mælieiningin á áhrif breytinganna yrðu að vera börnin sjálf og vistunartími þeirra eftirleiðis.

„Við munum auðvitað meta áhrifin af þessu og kortleggja þetta bæði til skemmri og lengri tíma en það verðum við auðvitað að sjá hverju fram vindur. Það eru allir sammála um það að fylgjast mjög grannt með hvernig þessi breyting á gjaldskrármálum og kerfisbreyting gagnast okkur. Við tökum umræðu um það í haust og svo til lengri tíma og bregðumst þá við ef að ástæða þykir til. Þannig að það liggur alveg fyrir. Ég held að það sé óþarfi að fara að útlista það eitthvað nákvæmlega hvernig við mælum það. Það augljóst að mælieiningin eru börnin og vistunartíminn.“

Nýju reglurnar í heild

Þær reglur sem þannig eru nú formfestar hjá Fjarðabyggð og hafa þegar tekið gildi eru:

  • Opnunartími leikskólanna fer úr 9 klst niður í 8,5 klst. Opnun allra leikskólanna verður nú samræmd og verður frá 07:45 - 16:15.
  • Almennt vistunargjald fyrir 6 klst vistun lækkar umtalsvert eða um 30% á mánuði.Markmiðið er að hvetja fjölskyldur til að stytta viðveru barna og minnka þannig álagiðá þau.
  • Viðbótar vistunargjald verður hækkað. Tímabilið frá kl 07:45 – 08:00 kostar 10.000kr. á mánuði en tímabilið frá 16:00 – 16:15 kostar 5.000 kr.
  • Skráningardagar verða 20 talsins á árinu og munu kosta 3.000kr per. hvern skráningardag. Þetta eru dagar þar sem ekki er gert ráð fyrir að börn mæti íleikskólann nema foreldrar skrái þau sérstaklega. Markmiðið með skráningardögum er að gefa foreldrum tækifæri til að spara leikskólagjöld ef þeir geta haft börnin heima og til að starfsmenn geti í meira mæli nýtt styttingu vinnuvikunnar þessa daga eða notað orlofsdaga sína. Allir skráningardagar munu birtast í skóladagatölum leikskólanna í mars mánuði ár hvert.
  • Tekjuviðmiðið verður tvískipt og veitir 50% afslátt af dvalargjöldum (það er almennu vistunargjaldi, viðbótar vistunargjaldi og gjaldi vegna skráningardaga).
  • Tekjuviðmið einstaklinga verða á bilinu 0 – kr miða 0-9.000.000 kr. við meðaltekjur á 12 mánaða tímabili.
  • Tekjuviðmið sambúðarfólks verður á bilinu 0-13.600.000 kr. miða við meðaltekjur á 12 mánaða tímabili.
  • · Innritun nemenda í leikskóla Fjarðabyggðar verður ársfjórðungslega.
  • · Foreldrar og forsjáraðilar geta skráð börnin sín í sveigjanlega dvöl í upphafi hverrar annar eða í síðasta lagi 15. apríl fyrir sumarönn, 15. ágúst fyrir haustönn og15. desember fyrir vorönn. Hægt verður að haga skráningum þannig að dvölin sé mismunandi eftir dögum en þó aldrei meira en 42,5 tímar á viku.
  • Leikskólar opna seinna eða loka fyrr fjórum sinnum á ári vegna starfsmannafunda (ársfjórðungslega).
  • Ef leikskóla eða deild er lokað vegna manneklu eða annarra óviðráðanlegra ástæðna í hálfan dag eða meira eru gjöld fyrir þann tíma felld niður.