Formleg gjaldtaka við Hafnarhólma í sumar
Verið er að leggja lokahönd á samninga þess efnis að frá og með komandi sumri þurfi gestir við Hafnarhólma á Borgarfirði eystra að greiða sérstök bílastæðisgjöld hyggist þeir staldra þar við.
Verið er að semja við fyrirtækið Kvasi um gjaldtökuna en sú verður með sama sniði og við Hengifoss þar sem sömu aðilar sjá um innheimtu gjaldanna.
Verður þetta í fyrsta skiptið sem gjald verður innheimt við þennan magnaða stað þar sem ekki aðeins gestir geta notið þjónustu á fallegum stað í þjónustuhúsinu heldur og komist í óvenjulegt návígi við hina fallegu lunda í hólmanum fræga.
Rætt hefur verið um beina gjaldtöku á staðnum um árabil án þess að úr hafi orðið en síðustu tvö sumrin hefur verið prófað að óska frjálsra framlaga frá þeim gestum er heimsótt hafa. Það skilaði árið 2023 rétt rúmum tveimur milljónum króna sem er víðsfjarri þeim upphæðum sem um er að ræða með beinum bílastæðagjöldum en á metfjöldi gesta heimsótti hólmann á síðasta ári eða rúmlega 67 þúsund gestir. Bílastæðagjöld munu því stórauka tekjurnar sem mun vel nýtast til dæmis til að hafa virkt eftirlit með að gestir gangi ekki of nærri fuglunum auk annars.
Það mun frá sumrinu nú kosta þúsund krónur fyrir að leggja meðalstórum bíl, fimmtán hundruð fyrir stærri bifreiðar, rúmar tvö þúsund krónur fyrir smárútur en tæplega níu þúsund krónur fyrir stærri rútur. Til stendur að sögn starfsmanns heimastjórnar Borgarfjarðar eystra að bjóða einnig afsláttarkort fyrir þá sem heimsækja staðinn oftar en einu sinni að sumri.