Skip to main content

Verndarsvæðið fyrsta skrefið að eflingu miðbæjar á Vopnafirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. jún 2025 11:28Uppfært 05. jún 2025 15:09

Umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, Jóhann Páll Jóhannsson, staðfesti í vikunni óskir og tillögur Vopnafjarðarhrepps um formlegt verndarsvæði í byggð á tæplega fjögurra hektara svæði í elsta hluta bæjarins.

Lýsti ráðherra mikilli ánægju með staðfestinguna enda væri augljóst að heimamenn hefði hlúið vel að byggingararfinum og sýnt mikinn metnað í að varðveita svipmót svæðisins sem um ræðir. Blessun ráðherrans lokahnykkurinn á ferli sem staðið hefur með hléum frá árinu 2016 af hálfu Vopnafjarðarhrepps.

Í grunninn merkir þetta að óheimilt verður að breyta þeim byggingum sem eru innan verndarsvæðisins nema með sérstöku samþykki sveitarfélagsins og í tilfellum opinberra stofnana líka. Með öðrum orðum er frjálsræði húseiganda töluverðar skorður settar umfram aðra staði í bænum.

Hið verndaða svæði nær gróflega frá Kolbeinsgötunni og niður að höfn en innan þess er að finna þyrpingu 16 ólíkra húsa frá hinum ýmsu tímabilum. Allar byggingarnar tengjast með einum eða öðrum hætti sögu atvinnulífs, verslunar eða sjósóknar í bænum gegnum tíðina.

Sveitarstjóri Vopnafjarðar, Valdimar O. Hermannsson, er mjög sáttur við að nú sé kominn endapunktur á langt ferlið.

„Það er búið að vinna að þessu í nokkur ár og því gleðilegt að þetta skuli orðið að veruleika. Þetta er svona fyrsta skrefið til að efla miðbæinn okkar til framtíðar og þó sumum þyki svona nokkuð vera hamlandi þar sem ekki má breyta byggingum og svoleiðis tel ég sjálfur kostina vera fleiri en gallana. Þarna er í raun verið að passa upp á hús sem eiga sér sögu og eru mikilvægur menningarfur. Nú verður tekið mið af þessu við alla vinnu við að efla miðbæjarsvæðið í heild sinni.“

Grófar útlínur verndarsvæðisins í miðbæ Vopnafjarðar en innan þess eru velflestar elstu og merkustu byggingar í bænum.