Forsetaefnið: Baldur Þórhallsson

Á morgun verður nýr forseti Íslands kosinn. Í aðdraganda kosninganna sendi Austurfrétt/Austurglugginn öllum frambjóðendum fimm spurningar.

Af hverju eiga Austfirðingar að kjósa þig?
Ég hef lagt á það höfuðáherslu í þessari kosningabaráttu að aukin skautun í samfélaginu okkar sé áhyggjuefni og að ég telji að forseti geti undið ofan af þeirri þróun.
Forseti verður að tala landið upp sem eina heild, eitt atvinnusvæði, eitt menntasvæði, eitt samgöngusvæði og eitt menningarsvæði. Við erum ein lítil þjóð í litlu landi og við verðum að standa betur saman. Okkur hefur tekist gríðarlega vel til í gegnum árin og búum við nú í samfélagi sem er borið saman við það besta sem býðst í heiminum. Allur sá árangur byggði á því að við stóðum saman, sama hvað á bjátaði og að allir fái að njóta þeirra tækifæra sem Ísland hefur upp á að bjóða óháð þátta eins og búsetu, kyns, kynhneigðar eða líkamlegrar getu.
Okkar brýnasta verkefni sem þjóð er að tapa aldrei þeirri samstöðu svo við getum haldið áfram að byggja ofan á þann góða grunn sem fyrri kynslóðir skildu eftir.

Hvað er það sem sameinar þjóðina að þínu mati?
Okkar sameiginlegu upplifanir og saga, menning og menningararfur er það sem sameinar okkur.
Við sjáum það vel hvað við erum sterk þegar við komum saman á okkar erfiðustu tímum þegar áföll dynja yfir og þegar við til dæmis fögnum saman afrekum á sviði íþrótta- og menningar. Þessar stundir sanna að við getum staðið saman og erum aldrei sterkari en á þeim stundum.

Af hverju á fólk að treysta þér?
Fólkið í landinu verður auðvitað að taka þá ákvörðun hvort það treysti því fólki sem gefur kost á sér til kjörinna embætta. Ég hef síðustu vikur lagt í dóm kjósenda mínar hugmyndir um hvernig ég myndi nýta tíma minn í embætti og forgangsraða verkefnum. Vigdís Finnbogadóttir forgangsraðaði til dæmis umhverfisvernd og eftir það átak liggur fjöldi skóga um allt land. Ég myndi vilja forgangsraða verkefnum í þágu barna og ungmenna og geðheilbrigði þeirra. Það er kominn tími á verulegt átak í þeim efnum og forseti gæti leitt það átak.

Hver er þinn uppáhaldsstaður á Austurlandi og af hverju?
Stórurð á Borgarfirði eystri.

Hver er þín uppáhaldsminning frá Austurlandi?
Þegar við Felix gengum í Stórurð á Borgarfirði eystri í guðdómlegri sól og blíðu eins og hún gerist best á Austurlandi. Að ganga þar yfir hæðirnar og niður af Stórurð er mögnuð upplifun. Við blasir ein af fegurstu náttúruperlum landsins og að standa við spegiltært vatnið og horfa yfir til Dyrfjalla fyllir mann orku sem nýtist út árið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.