Forsetaefnið: Halla Hrund Logadóttir

Á morgun verður nýr forseti Íslands kosinn. Í aðdraganda kosninganna sendi Austurfrétt/Austurglugginn öllum frambjóðendum fimm spurningar.

Af hverju eiga Austfirðingar að kjósa þig?
Fyrir mér er sérstaklega mikilvægt að forsetinn tali fyrir því að allt landið okkar vaxi og dafni og hjálpi til við að efla skilning á tækifærum og áskorunum á landsbyggðinni eins og á Austfjörðum. Það er hagur allra landsmanna, og ekki síður framtíðarkynslóða, að sem flest svæði landsins séu í sókn.
Ég hef óbilandi trú á Íslandi og vil styðja við nýsköpun, atvinnulíf og menningu. Ég vil tryggja jafnan aðgang að tækifærum og stuðla að því hugvit sé virkjað og að náttúruauðlindir séu nýttar á sjálfbæran hátt. Forsetinn er í þjónustu við landsmenn, enda eigum við embættið saman, og ég mun vinna að heilindum og dug fyrir Austfirðinga í því þýðingarmikla hlutverki.

Hvað er það sem sameinar þjóðina að þínu mati?
Það er svo margt sem sameinar okkur en samhugurinn og samstaðan, sem meðal annars hefur gert okkur kleift að byggja upp mikilvægustu innviði þjóðarinnar og að ná árangri sem margar stærri þjóðir gætu verið fullsæmdar af, eru áherslur sem við verðum að rækta. Jafnframt er fátt sem sameinar okkur meira en íslenska tungan, enda geymir hún menningararf okkar. Við þurfum að tryggja að íslenskan fylgi okkur inn í nýja tíma tækni og að innflytjendur nái tökum á henni með þátttöku í samfélaginu og kennslu, svo að við eflumst og styrkjumst sem heild.

Af hverju á fólk að treysta þér?
Vegna þess að ég hef sýnt í störfum og skrifum mínum að ég brenn fyrir almannahagsmunum og vinn að þeim af heilindum þótt á móti blási. Ég hef einnig umfangsmikla reynslu tengda lykilhagsmunum Íslands, m.a. úr embætti orkumálastjóra og við Harvard háskóla, þar sem ég kenni á meistarastigi. Hér á ég við málefni auðlinda okkar, menningar- og jafnréttis, en ég hef byggt upp verkefni á öllum þessum sviðum innan lands og utan.

Hver er þinn uppáhaldsstaður á Austurlandi og af hverju?
Það besta við Austurland er að þar er alltaf gott veður - og því hver staðurinn öðrum fallegri í sólinni. Ég verð þó að segja að gönguleiðin um Víknaslóðir er ein af mínum uppáhalds á landinu en þar fór ég með fjölskyldu og vinum fyrir nokkrum árum og féll í stafi yfir fegurðinni sem blasti við hvert sem litið var.

Hver er þín uppáhaldsminning frá Austurlandi?
Þær eru margar. Mér fannst afar eftirminnilegt þegar ég heimsótti steinasafn Petru í fyrsta sinn með fjölskyldunni. Við gleymdum okkur þar í langan tíma og völdum okkur fallega óskasteina. Mér finnst Seyðisfjörður líka einstakur því þar er sköpunarkrafturinn svo áþreifanlegur. Svo verð ég að nefna að það var yndislegt að eiga útiframboðsfund á dögunum á bryggjunni hjá Randulffssjóhúsi. Þangað ætla ég aftur til að synda í sjónum og draumurinn væri að enda daginn í heita pottinum í sundlauginni á Egilstöðum eða með viðkomu í Vök.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.