Forsetaefnið: Halla Tómasdóttir
Á morgun verður nýr forseti Íslands kosinn. Í aðdraganda kosninganna sendi Austurfrétt/Austurglugginn öllum frambjóðendum fimm spurningar.Af hverju eiga Austfirðingar að kjósa þig?
Mér finnst ekki að neinn eigi að kjósa mig. En ég vona að Austfirðingum líki nógu vel við mig og málflutning minn til að vilja kjósa mig sem forseta. Fyrst og fremst vegna þess að ég vil þjóna þjóðinni eins vel og mér er unnt. Þar koma að notum bakgrunnur minn frá íslensku alþýðuheimili harðduglegs fólks, fjölbreytt menntun heima og erlendis, störf við kennslu, skólahald, og rekstur fyrirtækja sem miða að því að bæta hegðun viðskiptaheimsins gagnvart umhverfinu, starfsfólki sínu og viðskiptavinum. Ég hef mjög sterkt alþjóðlegt tengslanet sem getur nýst Íslandi á ýmsan hátt. Ég hef mikinn metnað fyrir hönd lands og þjóðar, sé ótal tækifæri og hef kraftinn og ástríðuna sem þarf til að fylgja þeim eftir. Svo lærði ég að vinna fyrir austan, í fiski í Neskaupstað og á Djúpavogi, svo ég veit að fólk á Austurlandi kann vel að meta duglegt fólk.
Hvað er það sem sameinar þjóðina að þínu mati?
Tungumálið og sagan eru ómetanlegt sameiningarafl. En ég held að sterkasta sameiningaraflið sé fámennið. Við erum ekki mörg. Það er svo stutt á milli okkar að flest getum við fundið sameiginlega vinnufélaga, skólasystkin, ættingja og vini, þegar við tökum tal saman. Við erum flest alin upp við svipuð gildi og höfum skilning á afstöðu hvers annars, þótt auðvitað greini okkur á um margt.
Af hverju á fólk að treysta þér?
Af því að mér er treystandi. Ég er heiðarleg, opin og orðheldin. Ekkert í mínu lífi þarf að fela. Ég er velviljuð og meina það sem ég segi – ég læt ekki sitja við orðin tóm, heldur breyti orðum í athafnir. Dæmi um það er að ég tala ekki bara um mikilvægi menntunar, heldur tek þátt í að stofna nýjan háskóla og kenni þúsundum nemenda af ýmsu tagi; ég tala ekki bara um mikilvægi jafnréttis, heldur stend fyrir og stýri áhrifamiklu átaki fyrir kynjajafnrétti: Auði í krafti kvenna, sem hundruð kvenna frá 7 ára aldri og upp úr tóku þátt í; ég tala ekki bara um nauðsyn heiðarleika í viðskiptum, heldur stofna fjármálafyrirtæki sem byggir á heiðarleika og góðum gildum; ég tala ekki bara um nauðsyn þess að viðskiptaheimurinn axli ábyrgð á að bæta heiminn, heldur stýri alþjóðlegum samtökum leiðtoga sem vinna að því að fá áhrifamikil fyrirtæki til að breyta hegðun sinni og meðferð á umhverfinu, starfsfólki og viðskiptavinum; við reynum líka að sannfæra löggjafa og þjóðarleiðtoga um mikilvægi þess að breyta leikreglunum – lögunum – svo að þessar mikilvægu breytingar gerist sem hraðast.
Hver er þinn uppáhaldsstaður á Austurlandi og af hverju?
Ég á erfitt með að gera upp á milli – ég hef dálæti á mörgum heillandi stöðum á Austurlandi: til dæmis Lónsöræfin, Loðmundarfjörður, Stórurð, Stuðlagil, Hornafjörður með sitt óviðjafnanlega útsýni til allra átta. En fyrstu ástinni kynntist ég í Neskaupstað og á Djúpavogi vann ég 12-15 klukkutíma vinnudaga í heilt sumar og fór svo á böll á laugardagskvöldum, svo þessir staðir eiga dálítið mikið í mér.
Hver er þín uppáhalds minning frá Austurlandi?
Hún er svolítið fyndin, því hún var blanda af hrifningu, skelfingu og létti. Við vorum á leið til Vopnafjarðar í ískyggilegu veðri. Við ýmist sáum varla út úr augum fyrir þoku, sem var ansi taugatrekkjandi, eða slæðurnar sviptust frá og við supum hveljur yfir þverhnípinu og hinu óviðjafnanlega útsýni yfir Hérað. Það mátti ekki á milli sjá hvort var skelfilegra. Léttirinn í bílnum var mælanlegur þegar þessi hjalli var að baki.