Forsetaefnið: Helga Þórisdóttir
Á morgun verður nýr forseti Íslands kosinn. Í aðdraganda kosninganna sendi Austurfrétt/Austurglugginn öllum frambjóðendum fimm spurningar.Af hverju eiga Austfirðingar að kjósa þig?
Af sömu ástæðum og aðrir.
Hvað er það sem sameinar þjóðina að þínu mati?
Tungumálið okkar, sagan og hefðirnar.
Af hverju á fólk að treysta þér?
Í fyrsta lagi er ég hvorki háð pólitískum áhrifum né hagsmunahópum. Í öðru lagi hef ég víðtæka þekkingu og reynslu af lögum landsins. Sem forstjóri Persónuverndar hef ég varið friðhelgi einkalífs ykkar fyrir:
• Stórfyrirtækjum, sem ásælast viðkvæmar upplýsingar um heilsufar ykkar.
• Fjármálastofnunum, sem vilja dreifa upplýsingum um fjárhagsstöðu ykkar.
• Og menntastofnunum, sem vilja safna upplýsingum um börnin ykkar í gegnum smáforrit í kennslustofum.
Þessi staðfesta mín hefur farið fyrir brjóstið á valdamiklu fólki á æðstu stöðum. Þannig hef ég meira að segja verið gagnrýnd af ráðherrum ríkisstjórnarinnar fyrir það eitt að fara að lögum. Ef einhver er að hugsa um forsetann sem mikilvægan öryggisventil, þá á mitt erindi ekki að vefjast fyrir neinum!
Hver er þinn uppáhaldsstaður á Austurlandi og af hverju?
Ég á ættir að rekja til Sunnuhlíðar í Sunnudal rétt fyrir utan Vopnafjörð. Frænka mín Helga Jónsdóttir fjármagnaði til dæmis kirkjuorgelið í kirkjunni á Hofi. Mér þykir afar vænt um þessa tengingu við Austurlandið.
Hver er þín uppáhaldsminning frá Austurlandi?
Þegar ég endurnýjaði kynni mín við Helgu Jónsdóttur frænku mína og Baldur Kjartansson frænda minn fyrir um áratug síðan á Vopnafirði.