Forsetaefnið: Jón Gnarr
Á morgun verður nýr forseti Íslands kosinn. Í aðdraganda kosninganna sendi Austurfrétt/Austurglugginn öllum frambjóðendum fimm spurningar.Af hverju eiga Austfirðingar að kjósa þig?
Af sömu ástæðu og allir aðrir Íslendingar. Vegna þess að við erum einstakt fólk og við þurfum einstakan forseta sem ber hag fólksins í landinu fyrir brjósti.
Hvað er það sem sameinar þjóðina að þínu mati?
Okkar sameiginlega upplifun af því að búa á Íslandi, hvort sem við erum blóðskyld eða ekki, þá erum við eins og ein stór fjölskylda. Tungan sameinar okkur og gagnkvæm virðing, vinátta og traust sem hefur alltaf verið stór hluti af okkar menningararfi.
Af hverju á fólk að treysta þér?
Ég á sérstakt samband við þessa þjóð eftir að hafa verið í nánu samtali við hana í gegnum mína list í marga áratugi. Ég hef alltaf verið meðvitaður um að það dýrmætasta sem maður á er gott orðspor og hef alltaf lagt mikið upp úr því að eiga óflekkað mannorð og vera einhver sem fólk getur treyst. Ég tala skýrt og reyni að viðurkenna það sem ég veit ekki og ef ég hef gert mistök bæti ég upp fyrir þau.
Hver er þinn uppáhaldsstaður á Austurlandi og af hverju?
Ég ber sterkar taugar til Borgarfjarðar Eystri og hef verið þar oft hjá góðum vinum. Paradís á jörð!
Svo er ég líka gríðarlegur áhugamaður um stórmerkilegan uppgröft í Stöðvarfirði þar sem allt bendir til að landnám Íslands hafi byrjað.
Hver er þín uppáhaldsminning frá Austurlandi?
Þegar ég var barn með foreldrum mínum í tjaldútileigu í Hallormsstaðaskógi.