Forsetaefnið: Katrín Jakobsdóttir

Á morgun verður nýr forseti Íslands kosinn. Í aðdraganda kosninganna sendi Austurfrétt/Austurglugginn öllum frambjóðendum fimm spurningar.

Af hverju eiga Austfirðingar að kjósa þig?
Ég býð mig fram í þetta embætti vegna þess að ég trúi því að reynsla mín og þekking á samfélaginu geti gagnast landsmönnum öllum. Ég legg áherslu á rætur okkar; íslenska sögu, menningu og íslenska tungu en það skiptir máli að við hlúum að rótum okkar. Við þurfum að standa styrkum fótum í fortíðinni til að geta horft til framtíðar. Þá legg ég áherslu á þátttöku allra í samfélaginu í gegnum íþróttir, menningu, tómstundir og hvers kyns samfélagsstarf en þátttaka ólíkra hópa skiptir ekki síst máli til að Ísland verði áfram samheldið samfélag. Við vitum líka hvað þátttaka í hvers kyns samfélagsstarfi getur aukið hamingju okkar og forseti á að beita sér fyrir velsæld og hamingju en það eru mál sem ég hef unnið að á öðru sviði á undanförnum árum. Í þriðja lagi nefndi ég þau gildi sem ég tel að við getum flest sameinast um: Lýðræði, mannréttindi, jafnrétti og friðsamlegar lausnir. Það eru viðsjárverðir tímar í heiminum og rödd okkar þarf að heyrast skýrt og tala fyrir þessum gildum. Að lokum vil ég segja að ég finn það á öllum mínum fundum að fólk hefur áhyggjur af skilningsleysi á ólíkum aðstæðum fólks eftir því hvar það býr - hvað varðar samgöngur, aðgengi að þjónustu eða aðra innviði - og þar getur forseti gert gagn, vakið athygli á ólíkum aðstæðum og sinnt landinu öllu með mjög virkum hætti - sinnt störfum sínum frá ólíkum stöðum og sett byggðaþróun á dagskrá.

Hvað er það sem sameinar þjóðina að þínu mati?
Ísland er samheldið samfélag og almennt treystum við hverju öðru. Ég held að fyrir því séu ýmsar ástæður, meðal annars sagan og menningin en líka samfélagsgerðin sem byggist á miklum jöfnuði í alþjóðlegu samhengi. Forseti getur beitt sér fyrir aukinni samheldni og þess vegna tala ég um forseta sem sameinandi afl en ekki sameiningartákn.

Af hverju á fólk að treysta þér?
Í þessum kosningum legg ég mína sýn á samfélagið og mín gildi fram og get sagt það að verði ég kjörin muni ég sinna embættinu af heilindum og hollustu við þjóðina.

Hver er þinn uppáhaldsstaður á Austurlandi og af hverju?
Ég er óskaplega hrifin af fossum og Hengifoss er einn af mínum uppáhaldsfossum! Útsýnið af Hellisheiði eystri er auðvitað engu líkt. Á Skriðuklaustri vörðum við fjölskyldan einhverju sinni nokkrum dögum og nutum einstakrar blíðu og fegurðar. Og suðausturströndin við Djúpavog, með Búlandstindinn í bakgarðinum, tekur nú flestu fram þegar kemur að litum, birtu og fegurð!

Hver er þín uppáhaldsminning frá Austurlandi?
Ég á margar góðar minningar úr fríum með fjölskyldunni en við höfum tvisvar tekið sumarfrí á Djúpavogi og það var algjörlega frábær dvöl. Þá var ég um skeið í stjórn Lunga-skólans á Seyðisfirði og fannst mikill innblástur að taka þátt í því starfi. Svo varði ég sumri sem unglingur á Vopnafirði sem varð mér alveg ógleymanlega skemmtilegt af ýmsum sökum og ekki löngu seinna dvaldi ég á Borgarfirði eystra. Þannig að þær eru margar góðu minningarnar að austan!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.