Forsetaefnið: Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir
Á morgun verður nýr forseti Íslands kosinn. Í aðdraganda kosninganna sendi Austurfrétt/Austurglugginn öllum frambjóðendum fimm spurningar.Af hverju eiga Austfirðingar að kjósa þig?
Austfirðingar eiga að kjósa þann forseta sem þeir treysta best til að standa með sér og hagsmunum lands og þjóðar. Ég hef lofað að fara að fyrirliggjandi vilja þjóðar í auðlindamálum svo tryggja megi með þjóðaratkvæðagreiðslu að rík sátt sé um örlög landsins okkar. Ef það hugnast Austfirðingum, þá kjósa þeir mig.
Hvað er það sem sameinar þjóðina að þínu mati?
Það sem sameinar þjóðina er hlýja, gestrisni, kraftur og þor og ríkur vilji til góðra verka. Íslendingar elska landið sitt og vilja því allt það besta.
Af hverju á fólk að treysta þér?
Vegna þess að fólk veit fyrir hvað ég stend. Mínir hagsmunir eru hagsmunir þjóðarinnar. Ég mun, sem forseti, lúta vilja þjóðarinnar í grundvallar málum sem varða framtíð okkar ef þjóðin fer fram á það við mig.
Hver er þinn uppáhaldsstaður á Austurlandi og af hverju?
Minn eftirlætisstaður er Steinasafn Petru á Stöðvarfirði. Ég var yfir mig hrifin af safninu og dvaldi þar nánast hálfan dag að skoða steina. Ég er hrifin af steinum, enda heiti ég Steina. Petra og hennar þrotlausa vinna og afraksturinn, þetta merka safn, er staður sem ég ber djúpa virðingu fyrir.
Hver er þín uppáhaldsminning frá Austurlandi?
Við Stefán Karl og börnin fórum hringinn 2017, árinu áður en hann lést. Á Seyðisfirði á Stefán fjölskyldu og við áttum yndislega helgi þar í dásamlegu veðri. Ég missti ungling upp á Bjólf og hélt ég sæi hana ekki aftur þegar þokan huldi fjallið að kvöldlagi. En stelpan mín skilaði sér og var reynslunni ríkari. Seyðisfjörður er dýrðlega fallegur og fjölbreytt samfélagið skemmtilegt.