Forsetaefnið: Viktor Traustason

Á morgun verður nýr forseti Íslands kosinn. Í aðdraganda kosninganna sendi Austurfrétt/Austurglugginn öllum frambjóðendum fimm spurningar.

Af hverju eiga Austfirðingar að kjósa þig?
Það á enginn að kjósa mig. Ég vona bara að fólk fylgi eigin sannfæringu í kjörklefanum og ef hún samræmist mínum stefnumálum þá er það mér heiður. En ef það er verið að fiska eftir tengingu við austfirði, þá fer ég þangað að lágmarki einu sinni á ári og hef gert alla ævi. Nafnið mitt er í gestabókinni á Sandfellinu og Hoffellinu. Ég hef einnig komið út í Skrúð og Papey. Ég lærði að sjúga helíum úr blöðrum á Humarhátíð á Höfn og ég braut á mér fótinn í Vesturárdal Vopnafjarðar. Ég hef unnið í sláturhúsi á Vopnafirði og frystihúsi á Fáskrúðsfirði. Ég bið að heilsa öllu fólkinu mínu fyrir austan og vona að ég sé þeim til sóma. Fransí allabaddarí!

Hvað er það sem sameinar þjóðina að þínu mati?
Öll lifum við af veturinn og njótum hins svokallaða sumars. Með hafið á aðra hönd og fjöllin á hina.

Af hverju á fólk að treysta þér?
Fólk á ekki að treysta mér. Þess vegna vildi ég leggja áherslu á skýr stefnumál sem byggja ekki á því að ókunnugt fólk þurfi að treysta mínum geðþóttaákvörðunum.

Hver er þinn uppáhaldsstaður á Austurlandi og af hverju?
Kólonsbotn? Kólomsbotn? Hvað sem þessi blessaði franski skipstjóri hét sem staðurinn er kenndur við. Og svo að sjálfsögðu Sandfellið. Ég er því miður hlutdrægur.

Hver er þín uppáhaldsminning frá Austurlandi?
Að fara nakinn í fjallgöngu í bongó blíðu og steikjandi sól og skaðbrenna á austari hliðinni. Vera síðan hársbreidd frá því að deyja í skriðufalli.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.