Forsetahjónin hæstánægð með heimsókn til Þórshafnar og Vopnafjarðar
„Við hjónin nutum mikillar gestrisni og velvildar, fyrst á Þórshöfn á Langanesi og síðar á Vopnafirði,“ segir Guðni Jóhannesson, forseti Íslands, en tveggja daga ferð forsetahjónanna á austurslóðir lauk síðdegis á föstudag.
Forsetinn lýsti yfir mikilli ánægju með að komast aftur í heimsóknir sem þessar en að frátalinni heimsókn í Ölfus fyrir nokkru var heimsóknin á Langanes og í Vopnafjörð fyrsta heimsókn forsetahjónanna um langt skeið vegna Covid-19. Þetta var jafnframt í fyrsta skipti sem forsetinn heimsótti báða staði formlega sem forseti þó hjónin hafi áður lagt leið sína á þessar slóðir.
„Það var virkilega fróðlegt og skemmtilegt að kynnast mannlífinu á báðum stöðunum. Við fórum víða um, hittum margt skemmtilegt fólk auk þess sem við heimsóttum skóla, leikskóla, hjúkrunar- og dvalarheimili. Þá fórum við í útgerðarfyrirtækin, Ísfélagið á Þórshöfn og Brim á Vopnafirði, og fengum staðfest það, sem við vissum svo sem fyrir, að útvegur er undirstaða atvinnulífsins á báðum stöðum.“
Áskoranir finnast á öllum stöðum og ætíð sé eitthvað sem geri megi betur
„Til þess að mannlíf blómstri þurfa grunnstoðirnar auðvitað að vera í lagi. Það þarf að vera atvinnulíf, fólk þarf að hafa þak yfir höfuðið, það þurfa að vera skólar og leikskólar og heilbrigðisþjónusta og greiða leið að þjónustu ef hún er ekki í grenndinni. Svo má ekki gleyma afþreyingu. Fólk þarf að geta komist af bæ annars lagið.“
Slíkar heimsóknir færa forsetahjónunum mikið
„Það er ætíð gaman að heimsækja hin fámennari byggðalög ekki síður en önnur. Við búum jú öll í einu landi þó meirihluti landsmanna búi nú á suðvesturhorninu þá er þetta eitt land og það fleira sem sameinar okkar en sundrar. Það fundum við í þessari ferð sem öðrum. Krakkarnir á Þórshöfn og í Vopnafirði eru jafn hressir og krakkarnir í Reykjavík. Þau voru óhrædd að koma og vildu vita með hvaða liði í enska ég héldi með. Svo gáfu þau okkur buff og fleira. Slíkt kann ég vel að meta.“
Forsetinn tengdur Langanesinu
„Það er svo að langaafi minn og langaamma, Guðmundur Hjaltason, alþýðufræðari, og Hólmfríður Björnsdóttir, bjuggu sitt fyrsta hjúskaparár á Sauðanesi á heimili séra Arnljóts Ólafssonar og Hólmfríðar Þorsteinsdóttur. Þar voru þá um 30 manns heimilisfastir. Síðan voru þau á Skeggjastöðum og svo aftur á Sauðanesi. Aldamótaárið 1900 fluttu þau hjón svo í hús sem Guðmundur reisti hér og kallaðist Guðmundarhús.Það var með þremur torfveggjum, einum úr timbri og torfþaki. Þarna rak Guðmundur barnaskóla í þrjá vetur áður en þau fluttu brott. Þetta er mín tenging við Langanesið.“
Mynd: Forsetahjónin í góðum félagsskap barnanna á leikskólanum Barnaból á Þórshöfn. Mynd forsetaembættið