Forseti Íslands tekur fyrstu skóflustunguna að Hamborg
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. ágú 2025 15:37 • Uppfært 11. ágú 2025 10:29
Frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, kemur austur í Fljótsdal á þriðjudag. Aðaltilgangur heimsóknarinnar er að taka fyrstu skóflustunguna að væntanlegum þéttbýliskjarna í landi Hamborgar.
Jarðvegsframkvæmdir hófust á svæðinu í júlí en Höllu var boðið að taka fyrstu skóflustunguna að fyrsta húsinu sem rísa á í Hamborg. Hún þáði það boð.
Athöfnin við Hamborg hefst klukkan 13:30 á þriðjudag og er almenningi boðið að sækja hana. Þar verður meðal annars sagt frá verkefninu. Dagskráin verður flutt inn í Végarð ef veður þykir óhentugt til útiveru.
Halla mun koma við á fleiri stöðum í Fljótsdal, meðal annars við Hengifoss, á Skriðuklaustri, Óbyggðasetrinu, Fljótsdalsgrund og hjá Skógarafurðum.