Skip to main content

Forstjóri Smyril-Line vantrúaður á að Seyðisfjörður fái nokkurn tíma göng

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. apr 2025 09:48Uppfært 09. apr 2025 09:49

Óskar Sveinn Friðriksson, forstjóri Smyril-Line á Ísland, umboðsaðila ferjunnar Norrænu, segir að ferjan gæti siglt allt árið til Íslands sem jarðgöng yrðu gerð til Seyðisfjarðar. Vandamálið er að hann hefur ekki trú á að þau verði að veruleika.


„Það munu aldrei koma göng. En auðvitað þarf Seyðisfjörður göng. Göng myndu gera heilmikið fyrir bæjarfélagið, svona svipað og þegar menn tengdu Ólafsfjörð við Siglufjörð.

Ef Seyðisfjörður fengi göng yrði þetta allt annað bæjarfélag og ferjan myndi sigla allt árið til bæjarins,” segir Óskar Sveinn, í viðtali við Morgunblaðið í dag. Ferjan siglir í dag níu mánuði ársins, frá mars fram í desember.

Í sumar verða 50 ár liðin síðan reglubundnar siglingar hófust á vegum fyrirtækisins til Seyðisfjarðar. „Það er erfitt að sigla á Seyðisfjörð að vetri því Fjarðarheiðin er svo erfið yfirferðar,” bætir hann við.

Vaxtarmöguleikar í strandsiglingum eða álflutningum


Óskar Sveinn segir rekstur Norrænu annars hafa gengið vel, hún flytji út mikið af laxi og öðrum fiski frá Austfjörðum auk þess sem hún hafi fengið sinn skerf af fjölgun ferðafólks til Íslands.

Óskar Sveinn fer í viðtalinu víða yfir sviðið í möguleikum og þróun fyrirtækisins undanfarin ár. Velta þess hérlendis hefur vaxið úr átta milljörðum í 18 á þremur árum samhliða því sem það hefur byggt upp fraktflutninga í gegnum Þorlákshöfn.

Hann segir þungatakmarkanir í vegakerfinu vera fyrirtækinu hindranir víða um land en það hefur á undanförnum árum fært sig í auknu mæli yfir í landflutninga. Hann segir frekari vaxtarmöguleika felast til dæmis í strandsiglingum, til að safna vörum eða fara í samkeppni á útflutningi álveranna með öðrum lausnum sem fyrir séu.

Rafdrifnir flutningabílar ekki enn orðnir nógu öflugir


Hann gagnrýnir einnig hversu hratt flutningafyrirtækjum sé ýtt í átt að rafbílavæðingu því drægni þeirra sé ekki enn orðin næg til að tryggja næga nýtingu. „Rafmagnstrukkar ganga kannski í innanbæjarakstri. Ég reiknaði út að ég gæti farið fjórar ferðir á dag milli Þorlákshafnar og Reykjavíkur á rafmagnstrukk en fimm til sex ferðir á dag eru nauðsynlegar. Það er enginn að fara að taka bíl í notkun sem verður straumlaus á miðri Fjarðarheiði. Svo tekur níu tíma að hlaða hann.”

Hann ræðir einnig áform um kílómetragjald sem Smyril-Line þarf að innheimta af þeim margvíslegu farartækjum sem koma með Norrænu til Seyðisfjarðar. „Okkur ber að rukka inn kílómetragjöld miðað við tuttugu og tvo gjaldflokka. Gjaldið fer meðal annars eftir þyngd bílsins og dvalarlengd á Íslandi. Þetta er mjög flókið fyrir okkur sem skipafélag að innheimta, en við berum samt sem áður ábyrgð á innheimtunni fyrir ríkið. Við megum ekki hleypa bílunum inn fyrr en allt er afgreitt.“