Fótbolti: FHL heldur toppsætinu

FHL heldur áfram efsta sætinu í Lengjudeild kvenna eftir 0-4 sigur gegn ÍR um helgina. Leikmenn sem áður léku með austfirskum liðum skoruðu þrjú af þeim fjórum mörkum sem þau fengu á sig um helgina.

FHL er á miklu skriði í Lengjudeildinni og hefur nú þriggja stiga forskot á Aftureldingu og fimm stig á HK.

Emma Hawkins skoraði fyrsta markið á 17. mínútu og Selena Salas bætti öðru við á 45. mínútu. Íris Vala Ragnarsdóttir skoraði þriðja markið á 54. mínútu og fimm mínútum fyrir leikslok skoraði Emma annað sitt.

Einherji er á leið upp töfluna í annarri deild kvenna, er í fjórða sæti með 16 stig líkt og HK. Liðið vann Smára í Kópavogi 1-5 um helgina. Karólína Dröfn Jónsdóttir og Sari Menchon skoruðu í fyrri hálfleik en Kristín Inga Vigfúsdóttir, fyrrum leikmaður Hattar, minnkaði muninn á lokamínútunni. Þær Lilja Björk Höskuldsdóttir og Viktoria Szeles gerðu út um leikinn með mörkum á 81. og 87. mínútu.

Í annarri deild karla hefur skilið á milli austfirsku liðanna eftir leik þeirra sem KFA vann á Fellavelli um miðjan mánuðinn. Höttur/Huginn hefur sogast í átt að fallbaráttunni þar sem liðið hefur ekki unnið í síðustu fjórum leikjum og er í 9. sæti með níu stig.

Liðið tapaði 0-1 fyrir Selfossi á Vilhjálmsvelli um helgina. Gonzalo Zamorano, fyrrum leikmaður Hugins, skoraði sigurmarkið á þriðju mínútu uppbótartíma. Gestirnir höfðu þá leikið einum færri í 40 mínútur eftir að leikmaður þeirra fékk sitt annað gula spjald.

Á meðan heldur KFA í við toppbaráttuna, er í fjórða sæti með 16 stig. Matheus Gotler skoraði eina marki í 0-1 sigri á Ægi í Þorlákshöfn.

Spyrnir tók á móti Samherjum í 5. deild á föstudagskvöld. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en á annarri mínútu seinni hálfleiks kom Hrafn Sigurðsson Spyrni yfir. Gestirnir jöfnuðu kortéri síðar en Unnar Birkir Árnason kom Spyrni 1-2 yfir á 70. mínútu.

Sigurður Donys Sigurðsson, sem ólst upp hjá Einherja en lék síðar með Hetti, Spyrni og Huginn, jafnaði úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Sigurður er spilandi þjálfari Einherja og hafði verið inn á í fimm mínútur þegar kom að spyrnunni.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.