Fótbolti: FHL heldur toppsætinu
FHL heldur áfram efsta sætinu í Lengjudeild kvenna eftir 0-4 sigur gegn ÍR um helgina. Leikmenn sem áður léku með austfirskum liðum skoruðu þrjú af þeim fjórum mörkum sem þau fengu á sig um helgina.FHL er á miklu skriði í Lengjudeildinni og hefur nú þriggja stiga forskot á Aftureldingu og fimm stig á HK.
Emma Hawkins skoraði fyrsta markið á 17. mínútu og Selena Salas bætti öðru við á 45. mínútu. Íris Vala Ragnarsdóttir skoraði þriðja markið á 54. mínútu og fimm mínútum fyrir leikslok skoraði Emma annað sitt.
Einherji er á leið upp töfluna í annarri deild kvenna, er í fjórða sæti með 16 stig líkt og HK. Liðið vann Smára í Kópavogi 1-5 um helgina. Karólína Dröfn Jónsdóttir og Sari Menchon skoruðu í fyrri hálfleik en Kristín Inga Vigfúsdóttir, fyrrum leikmaður Hattar, minnkaði muninn á lokamínútunni. Þær Lilja Björk Höskuldsdóttir og Viktoria Szeles gerðu út um leikinn með mörkum á 81. og 87. mínútu.
Í annarri deild karla hefur skilið á milli austfirsku liðanna eftir leik þeirra sem KFA vann á Fellavelli um miðjan mánuðinn. Höttur/Huginn hefur sogast í átt að fallbaráttunni þar sem liðið hefur ekki unnið í síðustu fjórum leikjum og er í 9. sæti með níu stig.
Liðið tapaði 0-1 fyrir Selfossi á Vilhjálmsvelli um helgina. Gonzalo Zamorano, fyrrum leikmaður Hugins, skoraði sigurmarkið á þriðju mínútu uppbótartíma. Gestirnir höfðu þá leikið einum færri í 40 mínútur eftir að leikmaður þeirra fékk sitt annað gula spjald.
Á meðan heldur KFA í við toppbaráttuna, er í fjórða sæti með 16 stig. Matheus Gotler skoraði eina marki í 0-1 sigri á Ægi í Þorlákshöfn.
Spyrnir tók á móti Samherjum í 5. deild á föstudagskvöld. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en á annarri mínútu seinni hálfleiks kom Hrafn Sigurðsson Spyrni yfir. Gestirnir jöfnuðu kortéri síðar en Unnar Birkir Árnason kom Spyrni 1-2 yfir á 70. mínútu.
Sigurður Donys Sigurðsson, sem ólst upp hjá Einherja en lék síðar með Hetti, Spyrni og Huginn, jafnaði úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Sigurður er spilandi þjálfari Einherja og hafði verið inn á í fimm mínútur þegar kom að spyrnunni.
Mynd: Unnar Erlingsson