Fótbolti: KFA sendi Hött/Huginn á botninn með stórsigri - Myndir
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. ágú 2025 14:26 • Uppfært 14. ágú 2025 14:30
Höttur/Huginn er kominn í neðsta sæti annarrar deildar karla í knattspyrnu eftir 6-1 tap fyrir KFA á SÚN-vellinum í Neskaupstað í gær. KFA yfirspilaði Hött/Huginn í seinni hálfleik.
Það var Höttur/Huginn sem komst yfir á 20. mínútu með marki Danilo Milenkovic. KFA hafði fram að því verið meira með boltann og hélt því áfram. Þegar leið á hálfleikinn fóru fleiri og fleiri sendingar inn fyrir vörn Hattar/Hugins að rata til sóknarmanna KFA, einkum Jacques Mben sem miðverðir Hattar/Hugins voru í miklum vandræðum með.
Það var þó eftir hornspyrnu á 38. mínútu sem hann jafnaði með skalla. Rétt fyrir og skömmu eftir fékk hann tvö góð færi í viðbót en annars vegar varnarmaður, hins vegar markvörður, urðu fyrir skotum hans.
Tvö mörk beint úr aukaspyrnum
KFA byrjaði seinni hálfleikinn með stórsókn og lét skotin bylja á marki Hattar/Hugins. Loks lét undan, trúlega úr einu erfiðasta færinu þegar Jacques skoraði úr aukaspyrnu á 50. mínútu. Þar gerði hann mjög vel, skrúfaði boltann yfir varnarvegginn. Hann skoraði svo þriðja mark sitt á 52. mínútu, eftir horn.
Strax í næstu sókn fækkaði gestunum á vellinum um einn þegar miðvörðurinn Genis Caballe fékk sitt annað gula spjald. Genis, sem fékk gult spjald í fyrri hálfleik fyrir að hanga í Jacques, ákvað á óskiljanlegan hátt að sópa boltanum með hendi, þegar hann var að missa sendingu inn fyrir sig. Nokkrum mínútum síðar skoraði Marteinn Már Sverrisson fjórða mark KFA, aftur var það aukaspyrna sem skrúfuð var yfir vegginn.
Eftir þessi atvik var aðeins spurning um hversu stór sigurinn yrði. Á 66. mínútu skoraði Jawed Boumeddane eftir að KFA spilaði sig í gegnum vörn Hattar/Hugins. Hrafn Guðmundsson skoraði síðasta markið á 73. mínútu þegar hann fylgdi eftir skoti sem markvörður Hattar/Hugins varði.
Á 85. mínútu braut Danny El-Hage, markvörður KFA, á sóknarmanni Hattar innan teigs og dæmt víti. Danny varði hins vegar víti Bjarka Fannars Helgasonar og stuðningsmenn KFA sungu að Austurland væri rautt.
Höttur/Huginn á botninn
Með sigrinum færðist KFA upp í 8. sætið með 24 stig. Deildin er jöfn, upp í annað sætið eru aðeins sex stig en KFA á heldur eftir að spila við lið úr neðri hlutanum síðustu fimm leikina. Ósigur hefði dregið liðið niður í fallbaráttuna en öll hætta á að slíkt gerist er væntanlega úr sögunni.
Staða Hattar er hins vegar orðin slæm. Liðið er án sigurs í fimm leikjum í röð. Víðir, sem lengst af hefur vermt botnsætið, vann sinn annan leik í röð í gær og komst þar með upp úr fallsæti. Höttur/Huginn er þá kominn í botnsætið með 14 stig en Kári og Víðir eru næst þar fyrir ofan með 15 stig.
Fullkomlega verðskuldað
„Þetta var fullkomlega verðskuldað, allan tímann. Mér fannst við byrja með yfirhöndina og þeir skoruðu gegn gangi leiksins. Við áttum að fá aukaspyrnu úti á vellinum og fengum þá á okkur. Það átti samt mikið eftir að gerast og því var þetta vont mark að fá á sig.
En mér fannst við bregðast vel við, bættum aðeins í, létum boltann ganga vel á milli manna. Þegar við gerðum það og fórum inn á millisvæði þá sköpuðum við bæði stöður og færi,“ sagði Eggert Gunnþór Jónsson, þjálfari KFA eftir leikinn.
KFA liðið kom sérstaklega grimmt út í seinni hálfleikinn. „Við sáum ákveðna hluti sem gátu opnað möguleika. Við fórum í þau svæði strax, pressuðum og unnum boltann hátt uppi og sköpuðum okkur hættuleg færi og stöður í nánast hverri sókn.“
Loksins small allt
Það var hins vegar Jacques Mben sem sá um að nýta þessi færi enda skoraði hann þrennu. „Gæðin hans hafa alltaf verið til staðar og það er frábært að hann hafi sýnt þau. Hann hefur oft á tíðum ekki náð að sýna sitt rétta andlit, þótt hann hafi gert það á köflum. Hann slúttaði vel, komst í hættuleg færi og þeir réðu bara ekkert við hann.“
Þótt aðeins séu sex stig upp í annað sætið segir Eggert Gunnþór að KFA ofmetnist ekki eftir stórsigurinn. „Við horfum bara á næsta leik. Við tökum góða hluti með okkur úr þessum leik en förum ekki með himinskautum þótt við höfum unnið Hött/Huginn 6-1 á heimavelli. Við ætlum okkur bara að taka einn leik í einu og sjá hvað það gefur okkur.
Tímabilið hefur ekki gefið okkur þau stig sem við höfum talið okkur eiga skilin í sumar. Það eru fleiri leikir sem hefðu getað endað með svona tölum ef við hefðum nýtt færin okkar. Því verður ekki breytt núna en loksins small allt saman og mér fannst við sýna okkar rétta andlit.“
Rauða spjaldið drap vonir Hattar/Hugins
Brynjar Árnason, þjálfari Hattar/Hugins, sagði rauða spjaldið hafa verið vendipunktinn í leiknum. „Mér fannst við fínir fram að því, sérstaklega í fyrri hálfleik. Leikplanið var að halda vel og það gekk ágætlega. Þeir sköpuðu sér ekki mikið og við fengum fín færi úr skyndisóknum. Við erum enn inni í leiknum þegar Genis fær rauða spjaldið. Það er algjör vendipunktur og það drepur leikinn að þeir skora úr aukaspyrnu skömmu síðar.“
Hann vildi þó ekki gera of mikið úr úrslitunum sem slíkum. „Við erum bara áfram í fallbaráttu og hver leikur er úrslitaleikur. Sigur Víðis á Kára þýðir að þeir eru enn bara einu stigi á undan okkur, svo er aðeins lengra í KFG. Það er enn fullt af leikjum eftir og allt getur gerst. Við vitum að við getum alveg unnið þá alla. Við getum grátið yfir að þessi leikur hafi tapast óþægilega en við ætlum að leggja allt í að vinna næstu.
Við þurfum að finna einhverjar lausnir því sumarið hefur ekki gengið nógu vel. Við breyttum aðeins um leikstíl í dag og fengum nýja ferska menn sem stóðu sig vel. Ég treysti þessum hópi vel í verkefnið sem er að halda áfram að finna lausnir.“
Búið að taka samtalið um að þjálfararnir klári tímabilið
Víðisliðið hefur verið á uppleið eftir þjálfaraskipti en hjá Hetti/Huginn hefur stefnan verið sú að Brynjar og Björgvin Stefán Pétursson klári tímabilið. „Staðan er sú að stjórnin treystir okkur til að klára tímabilið. Við erum búin að eiga samtal um það en ég myndi skilja mjög vel ef menn vildu prófa eitthvað annað. En við erum búnir að ræða saman. Við höfum trú á að við getum snúið þessu við og stjórnin hefur trú á því þannig að þá erum við tilbúnir að halda áfram og klára tímabilið.“
Höttur/Huginn á hins vegar erfiða leiki eftir, tveir af næstu þremur leikjum eru gegn liðunum tveimur sem nú eru á toppnum. „Okkur hefur eiginlega gengið betur í sumar á móti þessum liðum en í neðri helmingnum.“
Meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá Hetti/Huginn í sumar. Sæbjörn Guðlaugsson fór meiddur af velli í fyrri hálfleik í gær og hans varamaður, Valdimar Brimir Hilmarsson, líka rétt fyrir leikslok. Stefán Ómar Magnússon og Kristófer Páll Viðarsson verða ekki meira með í sumar en bróðir hans Sæþór ætti að verða klár fljótlega. „Varla fyrir næsta leik en vonandi þar á eftir. Annars er hópurinn góður og á bekknum sprækir strákar sem geta alveg byrjað leikina sem eru framundan.“