Skip to main content

Fótbolti: Tilgangslítið jafntefli í Austfjarðaslag

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. jún 2025 10:26Uppfært 11. jún 2025 16:09

Höttur/Huginn og KFA gerðu 1-1 jafntefli þegar liðin mættust í annarri deild karla á Fellavelli í gærkvöldi. Stigið gerir lítið fyrir hvorugt liðið.


Mörkin komu með stuttu millibili í fyrri hálfleik. Marteinn Már Sverrisson kom KFA yfir á 32. mínútu með skalla eftir hornspyrnu en Danilo Milenkovic jafnaði á 39. mínútu með góðu skoti úr teignum.

Upphaflega átti leikurinn að fara fram á miðvikudag en var frestað með nokkurra daga fyrirvara þegar veðurspáin var sem verst. Það var gæfuríkt því á miðvikudagskvöldið gekk á með slagveðursrigningu og hefði ekki verið gaman fyrir neinn að vera á Fellavelli.

Í gær voru aðstæður hinar þolanlegustu enda mættu samkvæmt skýrslu 320 manns á völlinn, sem telst fínn fjöldi fyrir leiki í annarri deild.

Virðir stigið


Í samtali við stuðningsmannasíðu KFA sagðist Eggert Gunnþór Jónsson, þjálfari liðsins, svekktur með jafnteflið. KFA hefði að hans viti verið betra liðið.

„Ég virði stigið en mér fannst við eiga meira skilið. Leikurinn var barátta á köflum þegar þeir reyndu að hleypa honum upp í vitleysu, brutu og öskruðu en við náðum að halda okkar leik. Það hefur verið sagan í síðustu leikjum að lið mega varla finna lyktina af okkar vítateig, þá endar boltinn í netinu. Við verðum að stoppa það því það er erfitt að skora 3-4 mörk í leik.“

Stigið gerir lítið fyrir hvorugt liðið. Eftir að hafa unnið tvo fyrstu leikina hefur KFA spilað fjóra leiki án sigurs og er komið í 7. sæti með 8 stig. Af liðunum tveimur er Höttur/Huginn þakklátari fyrir það litla því liðið hafði ekki fengið stig síðan í fyrstu umferðinni og er í botnsætinu.

Einherji tapaði fyrir toppliðinu


Á Vopnafirði tók Einherji á móti Selfossi í annarri deild kvenna. Landsliðskonan fyrrverandi, Guðmunda Brynja Óladóttir, skoraði eina mark fyrri hálfleiks um hann miðjan. Seinni helming síðari hálfleiks bættust þrjú mörk gestanna við.

Selfoss, sem fyrir tveimur árum var í úrvalsdeild, hefur unnið alla fimm leiki sína. Egilsstaðabúinn fyrrverandi, Gunnar Borgþórsson, snéri aftur sem þjálfari liðsins fyrir þetta sumar. Einherji er um miðja deild enda aðeins spilað þrjá leiki enn.

Mynd úr safni. Mynd: Unnar Erlingsson