Framkvæmdasumar HEF á Djúpavogi hugsanlega í uppnámi

Drjúgar tafir hafa orðið á að borverktakar þeir sem ráðnir voru til jarðhitaleitar við Djúpavog fyrir hönd HEF veitna komist á staðinn og geti hafist handa. Tafirnar geta hugsanlega orðið til að setja framkvæmdasumarið á Djúpavogi í uppnám.

Þessar áhyggjur voru viðraðar á síðasta stjórnarfundi HEF veitna. Upphaflega var gert ráð fyrir samkvæmt samningi að tilraunaboranir eftir heitu vatni á Búlandsnesinu hæfust síðla nóvember eða nú í byrjun þessa mánaðar og tæki verkið einn til tvo mánuði. Öll tilskilin leyfi, borplan og tengingar hafa verið klár um tíma fyrir verkbyrjun. Nú er hins vegar orðið ljóst að borverktakar að sunnan komast líklega ekki í verkið fyrr en í janúar eða febrúar vegna skipulagsvandræða innanhúss hjá þeim en hér er um að ræða Ræktunarfélag Flóa og Skeiða.

Jarðfræðingur HEF, Glúmur Björnsson, skýrði frá því á fundinum að þessi mikla seinkun gætu hugsanlega sett framkvæmdaáætlun næsta sumar í uppnám varðandi hitaveitu á Djúpavogi. Mjög brýnt væri að skipuleggja og undirbúa allt í þaula eins og hægt sé áður en í ljós kemur hvað boranir leiða í ljós. Bókaði stjórnin í kjölfarið að lögð yrði áhersla á að ekki kæmi til frekari tafa af hálfu verktakanna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.