Framkvæmdir hafnar við hestahúsabyggð á Kirkjubólseyrum

Þegar menn taka sig sannarlega til ganga hlutirnir jafnan hratt og vel fyrir sig. Það sannast ekki síst hjá byggingafyrirtækinu Nestaki en fyrsta skóflustunga að nýrri hesthúsabyggð var tekin í dag einungis rúmum þremur mánuðum eftir að hugmyndin var fyrst viðruð.

Hesthúsabyggðin nýja fer nú að rísa á Kirkjubólseyrum í Norðfirði örskammt frá reiðhöllinni Dalahöllinni. Fékk fyrirtækið unga hestakonu, Hrafnhildi Stefánsdóttur, til að taka fyrstu skóflustunguna við viðhöfn fyrr í dag.

Töluverð þörf hefur verið lengi á góðri aðstöðu fyrir fjölda hestamanna í firðinum og ekki hvað síst í námunda við einu reiðhöllina í Fjarðabyggð allri. Það sannaðast glöggt í lok nóvember þegar Nestaksmenn kynntu hugmyndina fyrst á opnum fundi en það sama kvöld skráðu allnokkrir áhugasamir sig strax fyrir aðstöðu og er verkið unnið í góðri samvinnu við hestaáhugamenn.

Um er að ræða tólf stíu staðsteypt hesthús og stíurnar vel rúmgóðar. Í viðbót verður í húsinu góð geymsluaðstaða sem og önnur aðstaða sem hestamenn þurfa á að halda. Staðsetningin skammt frá Dalahöllinni mun efalítið auka lífið í reiðhöllinni sjálfri þegar hestamenn eiga eftirleiðis aðstöðu örskammt frá.

Að sögn Ara Benediktssonar hjá Nestak eru enn fáeinar stíur eftir og hvetur hann áhugasama til að hafa samband. Lagt er upp með að byggingin verði risin og komin í notkun með haustinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.