Skip to main content

Framkvæmdir við endurbætur Fjarðarborgar hefjast með haustinu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. apr 2022 15:08Uppfært 07. apr 2022 15:10

„Viðhaldi þarna hefur lengi verið ábótavant og á því skal ráða bót en jafnframt þarf að gera nokkrar breytingar innandyra til að fullnægja nútímakröfum varðandi aðgengi fatlaðra,“ segir Eyþór Stefánsson, formaður heimastjórnar Borgarfjarðar eystri.

Hönnunarvinna við endurbætur og viðhald hins sögufræga húss Fjarðarborgar er vel á veg komin og framundan eru framkvæmdir sem Eyþór segir vona að geti hafist með haustinu og eigi síðar en fyrir næstu áramót. Áríðandi sé að hafist verði handa á þessu ári því sérstakur fjárstyrkur, sem fékkst gegnum verkefnið Brothættar byggðir, er eyrnamerktur endurbótum á húsinu. Þá fjármuni þarf að brúka á þessu ári í síðasta lagi.

„Hugmyndin er að breyta efri hæðinni í skrifstofuaðstöðu fyrir fólk sem vill eða þarf aðstöðu. Svona athvarf fyrir fólk sem starfar án staðsetningar. Þá þarf að breyta jarðhæðinni líka. Bæði á að færa aðalinngang fyrir miðju hússins í þeim tilgangi að auðvelda aðgengið að lyftu sem sett verður upp þar sem stiginn er núna.“

Ekki er útilokað að fleira þurfa að gera til að koma húsnæðinu í gott horf en Eyþór segir verkefnið það viðamikið og dýrt að hér sé verið að tala um langan framkvæmdatíma.

Starfsemi verður í húsinu í sumar sem fyrr og húsið mun líklega spila rullu á Bræðslunni í sumar. Þá er stórt partí framundan í húsinu þann 30. apríl þegar þar verður haldið Sárablót Borgfirðinga.

Mynd: Samfélagsmiðstöðin Fjarðarborg á Borgarfirði eystra þarf á upplyftingu að halda. Vinna við húsið hefst í haust ef allt gengur upp. Mynd Múlaþing