Skip to main content

Framkvæmdum við stækkun Eskifjarðarhafnar miðar vel

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. ágú 2025 09:58Uppfært 20. ágú 2025 15:42

Áætluð verklok við yfirstandandi fasa stækkunar Eskifjarðarhafnar eru að tveimur mánuðum liðnum en innan þess tíma skal meðal annars ljúka við færslu árósa Bleiksárinnar, klára vegtengingu við Eskifjarðarveg og gera svæðið allt snyrtilegra.

Þessi áfangi verksins, Gatnagerð og veitulagnir, var boðinn út í apríl en framkvæmdir hófust um miðjan júní.

Allt gengur samkvæmt áætlun að sögn Birgittu Rúnarsdóttir, verkefnisstjóra hafna Fjarðabyggðar. Leirubakkinn mun því taka frekari breytingum næstu vikurnar sem bæjarbúar verða varir við þó verkefninu í heild sé hvergi nærri lokið.

„Verkið nú felst í jarðvegsskiptum í götum ásamt færslu á árósi Bleiksár og vegtengingu við Eskifjarðarveg“ segir Birgitta. „Þá skal jafna yfirborð að hönnuðum hæðum auk lagningar regnvatns-, vatnsveitu- og raflagna ásamt uppsetningu ljósastaura. Allt yfirborð kringum höfnina verður jafnað og lagnir frá bryggju lagðar að fyrirhuguðu rafmagns- og vatnshúsi sem sett verður upp á svæðinu.“

Hluti svæðisins sem um ræðir en meðal annars þarf að færa árósa Bleiksárinnar. Mynd ALTA/Fjarðabyggð