Skip to main content

Frístundabyggð að Eiðum þriðjungur þess sem gert var ráð fyrir í upphafi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. nóv 2023 10:25Uppfært 30. nóv 2023 10:42

Múlaþing hefur formlega auglýst vinnslutillögur vegna breytinga á aðal- og deiliskipulagi vegna fyrirhugaðrar frístundabyggðar að Eiðum. Samkvæmt þeim þurfa landeigendur að draga verulega úr upprunalegum áformum sínum.

Eins og Austurfrétt gerði skil í byrjun síðasta árs lögðu landeigendur að Eiðum, þeir Kristmann Pálmason og Einar Ben Þorsteinsson, þá fram metnaðarfullar tillögur um mikla fjölgun frístundalóða á landinu og þá sérstaklega á milli byggðakjarnans á staðnum og alveg niður að Lagarfljótinu. Hugmyndirnar gengu út á einar 160 frístundalóðir á því svæði. Var þar meðal annars tekið mið af því að Eiðar munu á næstu misserum fá hitaveitu á svæðið sem breytir töluvert áformum um frístundabyggð enda það rík krafa í dag meðal margra að hlutir eins og heitir pottar séu aðgengilegir við frístundahús. Slíkt ekki verið mjög fýsilegt hingað til vegna kostnaðar.

Á þeim tíma tók sveitarstjórn vel í hugmyndina um að deiliskipuleggja svo stóra frístundabyggð á svæðinu en í kjölfar nokkurs fjölda athugasemda, meðal annars vegna einstakrar náttúru í og við Eiðavatn, hefur umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings nýlega samþykkt að auglýsa formlega endurskoðaða vinnslutillögu. Þar er einungis gert ráð fyrir 50 frístundalóðum samkvæmt þeirri tillögu á um 53 hektara svæði. Þó er tekið fram að ákvarðanir um frekari uppbyggingu á þessu svæði verði teknar í tengslum við heildarendurskoðun aðalskipulags sem nú stendur yfir.

Hægt verður að gera athugasemdir við endurskoðaða tillöguna fram til 22. desember á skipulagsvef Múlaþings.

Loftmynd af fyrirhuguðu frístundasvæði eins og það átti að vera í upphafi. Þar um 160 lóðir að ræða en þeim hefur fækkað nú í 50 alls.