Skip to main content

Frjósemi kvenna á Austurlandi í lægri kantinum eins og víðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. mar 2025 14:19Uppfært 19. mar 2025 14:20

Aðeins sex sinnum frá aldamótum hefur fjöldi ungbarna sem lifandi fæðast austanlands verið minni en á síðasta ári samkvæmt nýútgefnum tölum Hagstofu Íslands. Árið 2024 komu 111 börn í heiminn í fjórðungnum.

Hagstofan birti í dag tölur sínar yfir frjósemi í landinu á síðasta ári og sú fregn nokkuð sláandi því aldrei nokkurn tímann áður hefur frjósemi íslenskra kvenna mælst eins lítil frá upphafi slíkra mælinga hérlendis árið 1853.

Aðeins 4.311 börn komu lifandi í heiminn á liðnu ári í landinu öllu en mælikvarði frjósemi er fjöldi lifandi barna á ævi hverrar konu en frjósemin þarf að vera 2,1 barn til að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið. Á síðasta ári reyndist talan fyrir Ísland vera 1,56.

Sé litið á tölur þessar fyrir Austurland frá aldamótum hafa komið nokkur ár þegar færri börn fæddust en í fyrra en allra fæst börn fæddust árið 2002 eða aðeins 99 talsins. Slétt 100 börn komu í heiminn árið 2011 og 105 bæði árið 2020 og 2023.

Tölur fæddra barna austanlands rokka töluvert mikið sé litið aftur til ársins 2000. Fjöldi á milli 130 og 150 börn að meðaltali yfir línuna en flest börn fæddust árið 2006 þegar 161 barn leit dagsins ljós fyrsta sinni.

Stigsmunur er þó merkjanlegur frá árinu 2017 því síðan þá hefur fjöldi nýbura verið milli 105 og 117 ef frá er talið 2021 þegar barnafjöldinn náði 125 alls.