Frostþoka liggur yfir Lagarfljóti – Myndir
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. des 2023 15:52 • Uppfært 06. des 2023 16:31
Frostþoka hefur myndast yfir Lagarfljóti í miklum kulda síðustu daga. Næsta nágrenni fljótsins er hrímað. Hún getur skapað vandræði á flugvellinum þótt bremsuskilyrði séu með besta móti. Ljósmyndaáhugamaður er heillaður af sjónarspilinu.
„Ég var að keyra yfir í Fellabæ á mánudag því mig langaði að taka myndir þegar sólin var sem hæst á lofti á mánudag. Ég hafði séð litla þoku liggja yfir Fljótinu. Ég lengdist við að mynda og þokan hvarf þegar ég var farinn. Ég setti eina mynd á Facebook en fékk símtal úr flugturninum með hvatningu um að taka fleiri þannig ég fór aftur af stað í gær.
Þá var þetta eins að keyra inn í vegg. Þokan var svo þykk. Hún nær hins vegar ekki langt upp í loftið. Í gær fór ég aftur um sólarlag. Það var smart að sjá hvernig þokan lá yfir og fylgdi algjörlega fljótinu,“ segir Unnar Erlingsson, ljósmyndari á Egilsstöðum, sem hefur myndað frostþokuna með flygildi sínu síðustu daga.
Lagarfljótið hlýrra en umhverfið
Þótt veðrið þessa vikuna hafi verið sérlega kalt hefur það að mörgu leyti verið svipað og síðustu vikur. Stillt hefur verið og þoka myndast á nóttunni þannig að hrímað hefur verið á morgnana. En ekki nærri jafn mikið og allra síðustu daga.
Frostið hefur verið meira en -10°C á Egilsstaðaflugvelli nær stöðugt síðan snemma á mánudagsmorgunn. Frá klukkan 17 í gær til 7 í morgun var það stöðugt milli 16 og 17 stig.
„Lagarfljótið er mjög hlýtt miðað við umhverfi sitt. Uppgufun úr því myndar þokuna. Í þessari stillu þá blandast loftið ekki þannig að raka loftið sest yfir fljótið. Þá myndast þessi hrím- eða frostaþoka. Þegar hún kemur við yfirborð þá frýs hún,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Þokan teygir sig ekki nema nokkra tugi eða fáeina hundruð, metra frá bökkum fljótsins. Þar fyrir utan er loftið tært. Á þessu svæði er þó allt orðið vel hrímað. Frostþokan var á sínum stað í dag þótt hún entist skemur en í gær.
Þokan getur falið flugvöllinn
Flugvöllurinn á Egilsstöðum er í miðju þokunnar. Samkvæmt skriflegu svari frá innanlandsflugvöllum Isavia þá þurfa flugvélarnar að sjá til vallar í tiltekinni hæð til að mega lenda. Annars þurfa þær að fljúga upp aftur, fara í fráhvarfsflug, til að gera aðra tilraun eða snúa til varaflugvallar.
Á Egilsstöðum er kominn upp búnaður til nákvæmnisflugs (ILS) til norðurs þannig að vélarnar geta flogið neðar en við notkun GPS aðflugsbúnaðar, áður en ákvörðun er tekin um fráhvarfsflug. Þrátt fyrir þennan búnað og heiðríkju nokkrum metum ofan brautar geta komið upp þær aðstæður að vegna frostþokunnar sjái vélarnar ekki niður á jörðu og þar með ekki brautina tímanlega. Beina þurfti einkaþotu til Keflavíkur sem átti að lenda á Egilsstöðum í hádeginu í gær.
Á móti kemur að við aðstæður eins og síðustu daga eru bremsuskilyrði afar góð. Þau geta hins vegar verið vafasamari þegar hitinn er í kringum frostmark.
Að sögn Þorsteins hjá Veðurstofunni er von á að áfram verði kalt í veðri og því líkur á frostþoku á Egilsstöðum næstu daga.
Loftmyndir: Unnar Erlingsson