Fréttaskjárinn horfinn af sviðinu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. feb 2013 22:05 • Uppfært 08. jan 2016 19:23
Útgáfu fréttablaðsins Fréttaskjásins á Seyðisfirði var hætt um áramótin eftir um þrjátíu ára útgáfu sögu. Bæjarstjórinn segir eftirsjá af blaðinu.
Þau Jóhann Hansson og Hrefna Vilbergsdóttir hafa haft veg og vanda af útgáfunni undir nafni Fjölritunarstofunnar Kópíu en Jóhann hefur jafnan verið titlaður ritstjóri. Efni blaðsins hafa verið tíðindi úr heimabyggð, leiðari, getraunaseðill helgarinnar og landanir fiskibáta svo dæmi séu nefnd.
Í áramótaávarpi sínu lýsti Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri, eftirsjá sinni af blaðinu. „Það verða viðbrigði og víst er að Seyðfirðingum verður eftirsjá af honum. Ef til vill er óskhyggja að tala um kaflaskipti því það krefst hugsjóna og þolgæðis að halda úti útgáfu blaðs í ekki stærra byggðarlagi og verður varla mjög ábatasamt.“