Skip to main content

Frumrannsókn hafin á flugslysinu í Sauðahlíðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. júl 2023 14:56Uppfært 17. júl 2023 19:06

Rannsókn á tildrögum slyssins þar sem þrír létust þegar TF-KLO brotlenti ofan Skriðdals í síðustu viku er komið á stig frumrannsóknar. Viðbúið er að 1-3 ár líði þar til lokaskýrsla með líklegum orsökum slyssins komi fyrir augu almennings.


Rannsóknarnefnd umferðarslysa (RNSA) sem sér um rannsóknina. Nefndin rannsakar alvarleg umferðar-, sjó- og flugslys. Tveir sérfræðingar eru á hverju sviði auk fjögurra nefndarmanna. Stundum koma sérfræðingar af einu sviði að rannsókn máls á öðru sviði.

„Þetta eru alls um 20 manna hópur. Við höfum mikla sérfræðiþekkingu svo sem flugmenn, flugvirkja, veðurfræðing og lækni,“ segir Þorkell Ágústsson sem stýrir rannsókninni á hvað gerðist þegar TF-KLO fórst.

Vélin fórst við Sauðahlíðar, ofan Skriðdals, seinni part sunnudagsins 9. júlí og með henni allir sem voru um borð, þrír einstaklingar. Hún hafði verið við athuganir á hreindýrum. Sérfræðingar RNSA komu á vettvang strax um kvöldið og hófu vettvangsrannsókn.

Í vettvangsrannsókninni er reynt að safna þeim gögnum sem hægt er á vettvangi. Henni var lokið um sólarhring eftir slysið og var flakið þá flutt, fyrst með þyrlu niður í Fljótsdal og þaðan á vörubíl í rannsóknarskýli nefndarinnar á höfuðborgarsvæðinu.

Stundum gefin út bráðabirgðaskýrsla


Næsta stig er frumrannsókn þar sem haldið er áfram með gagnasöfnunina. „Við erum rétt að byrja frumrannsóknina. Í henni reynum við að ná í öll möguleg gögn,“ útskýrir Þorkell.

Viðbúið er að hún taki nokkrar vikur, jafnvel mánuði. Hún á að veita upplýsingar um að hvaða þáttum í fluginu nánari rannsókn beinist. Að lokinni frumrannsókninni er stundum gefin út bráðabirgðaskýrsla en það er ekki algilt.

Þar á eftir hefst hin eiginlega rannsókn. Eftir því sem við á eru íhlutur úr flugvélinni sendir til rannsóknar erlendis. „Við eigum í mjög góðu samstarfi við til dæmis framleiðendur hreyfla og véla,“ segir Þorkell.

Á vef Rannsóknarnefndar samgönguslysa kemur fram að lokaskýrsla liggi gjarnan fyrir 1-3 árum eftir slys. Rannsókn á brotlendingu við Múlakot sumarið 2019 lá fyrir einu og hálfu ári síðar. Skýrsla vegna vélar sem brotlenti í Þingvallavatni í febrúar í fyrra er ekki enn komin. Bráðabirgðaskýrsla kom út í júní í fyrra en þar tók tíma að ná vélinni úr vatninu. Sú vél var líkt og TF-KLO af gerðinni Cessna 172N. Þorkell segir ómögulegt að draga nokkra ályktun að því enda sé um mjög algenga flugvélategund að ræða.

Áður en skýrslan er gefin út opinberlega þá hún send til umsagnar og brugðist við þeim athugasemdum sem berast. Þorkell segir að á þessu stigi sé ómögulegt að segja nokkuð til um hvað olli því að TF-KLO fórst.

Þorkell, í gulu við, rannsóknina. Mynd: Aðsend