FSN fékk ný tæki fyrir rúmar sjötíu milljónir króna

fsn_gjafir_april13_web.jpg
Velferðarráðherra tók í síðustu viku á móti gjöfum sem Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað (FSN) hafa borist undanfarið ár. Samanlagt verðmæti gjafanna nemur yfir 70 milljónum króna. Fleiri tæki á sjúkrahúsinu þarfnast endurnýjunar fljótlega.
 

Við athöfnina tilkynnti fulltrú SÚN að félagið hefði ákveðið að kosta endurnýjun á svæfingavél fyrir skurðstofu sjúkrahússins upp á sjö milljónir króna. Samanlagt verðmæti gjafanna nær því að minnsta kosti 77 milljónum króna.

Stærsta tækið í hópnum var nýtt sneiðmyndatæki sem Hollvinasamtök FSN söfnuðu fyrir en það kostaði 45 milljónir króna. Söfnunin hófst árið 2010 en um að ræða endurnýjun á eldra og minna tæki sem gefið var sjúkrahúsinu árið 2010. 

Líftími gamla tækisins var fimm ár samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda.  Síldarvinnslan og SÚN voru meðal stærstu bakhjarla söfnunarinnar. Nýja tækið er sextán sneiða, samanborið við tveggja sneiða eldra tækið og mun fullkomnara. Myndirnar úr tækinu eru sendar til Akureyrar þar sem lesið er úr þeim.

Endurnýjunin var fjarlægur draumur 
 
„Í ljósi þess hversu litlu fjármagni ríkisvaldið hefur veitt til endurnýjunar búnaðar Fjórðungssjúkrahússins hefur þessi draumur um endurnýjun sneiðmyndatækisins virst fjarlægur og oft á tíðum jafnvel óraunhæfur,“ segir í nýjasta fréttabréfi Hollvinasamtaka FSN.

„Sent var bréf til Fjárlaganefndar með beiðni um þrjátíu millj. til kaupa á nýju sneiðmyndatæki. Hollvinasamtökin sjálf áttu þá álitlega upphæð og ætlaði að safna fyrir mismuninum upp í nýtt tæki. 

Ráðherra velferðar veitti viðtal, ásamt því að farið var með formlegt erindi í ráðuneytið strax í upphafi. Þrátt fyrir þetta var engu fjármagni veitt af hálfu hins opinbera til þessara kaupa.“
 
Endurnýja þarf fleiri tæki  
 
Af öðrum gjöfum má nefna nýtt fæðingarrúm, fjögur rafdrifin sjúkrarúm á sjúkradeild, speglunarbúnað með myndgjafa fyrir skurðstofu, vöktunartæki og hugbúnað fyrir hjartasjúklinga.

í tilkynningu frá FSN segir að Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, hafi þakkað fyrir höfðinglegar gjafir frá nærsamfélaginu, til heilbrigðisþjónustunnar, sem sýni góðan hug og stuðning við mikilvæga þjónustu sem vætt væri íbúum Austurlands og öflugu framleiðsludrifnu atvinnulífi til lands og sjávar í fjórðunginum, sem skapaði mikilvægan gjaldeyri fyrir land og þjóð.

Þá var lagður fyrir ráðherra listi yfir brýna þörf á endurnýjun á búnaði spítalans. Svæfingavélin var þar efst á blaði en bæta þarf fleirum hlutum við speglunarbúnaðinn.

Í móttökunni var einnig tilkynnt um framleg einstaklings, sem í tilefni af áttræðisafmæli sínu ánafnaði FSN gjöf til hljóðfærakaupa, og var afhjúpað, nýtt og glæsilegt rafmagnspíanó, sem er færanlegt á milli deilda, til afþreyingar. 

Alls hafa Hollvinasamtökin með stuðningi velunnara og styrktaraðila fært FSN tækjakost upp á um 140 -150 milljónir á 12 árum. 
 
„Við verðum að vona að sú stefna verði tekin upp hjá nýrri ríkisstjórn að setja ávallt í forgang fé á fjárlögum til tækjakaupa og stuðla þannig að því að tryggt sé að tæki verði endurnýjuð reglulega,“ segir í fréttabréfinu.
 
Mynd: Austurglugginn/Sigurður Ingólfsson 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.