Fuglaflensu ekki vart austanlands enn sem komið er
„Það er ólíklegt annað en að við eigum eftir að verða þessa vör hér austanlands en hingað til hefur ekkert komið inn á borð hjá okkur,“ segir Halldór Walter Stefánsson, fuglafræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands.
Matvælastofnun tilkynnti formlega á föstudaginn var að fuglaflensan H5N1 hefði verið staðfest í dauðum fuglum hérlendis í minnst þremur tilvikum á sunnanverðu landinu. Þá leikur grunur um að tilfellin séu mun fleiri og til dæmis verið bent á óvenjulegan fugladauða meðal súlna í Eldey en þeir fuglar ekki verið rannsakaðir.
Halldór ítrekar að engar ábendingar um fugladauða hafi borist stofnuninni en hann segir útilokað annað en flensan finnist hér um slóðir á næstunni.
„Ein hugsanleg orsök þess að engin tilfelli hafa komið inn á okkar borð gæti verið að fólk hefur kannski ekki verið mikið að flakka um. Þá eru kannski ekki margir heldur að velta fyrir sér einum og einum dauðum fugli ef að er komið. En það má næstum slá föstu að við eigum eftir að sjá tilfelli ekkert síður en annars staðar.“
Matvælastofnun hefur beint þeim tilmælum til alifuglaræktenda að halda fuglum sínum frá villtum fuglum eins og hægt er og helst halda þeim undir þaki og girða af.
Þá hefur stofnunin og bent á að þau afbrigði veirunnar sem nú er mest um í nágrannalöndum hafi ekki sýnt sig að valda sýkingum í fólki en líkur á því eru þó til staðar og skyldu allir fara varlega ef komið er að veikum eða dauðum fuglum. Samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) eru skráð alls 863 þekkt tilfelli þess að veiran hefur fundist í fólki.
Mynd: Ýmsar tegundir fugla streyma nú til landsins til sumardvalar og þar á meðal gæsirnar en H5N1 veiran hefur fundist í einni gæs hérlendis nú þegar. Mynd Umhverfisstofnun