Full ástæða til að taka veðrið alvarlega

Almannavarnir á Austurlandi beina því til fólks að vera sérstaklega ekki á vegum úti á kvöldin eða nóttunni í ljósi óveðurs sem spáð er næstu daga. Búið er að lengja í viðvörunum vegna þess.

Veðurstofan gaf í gær út appelsínugula viðvörun fyrir Austurland að Glettingi og Austfirði. Viðvörunin tekur gildi klukkan 17:00 í dag og átti að gilda til miðnættis á morgun, þriðjudag. Hún hefur nú verið lengd út miðvikudag.

Þá tekur við gul viðvörun sem gildir til föstudagsmorguns. Hún getur enn breyst en líkur á að spár rætist hafa áhrif á litakóðann, en öryggið eykst þegar nær dregur. Búið er að ákveða að loka Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði frá klukkan 20:00 í kvöld og leiðinni milli Djúpavogs og Hafnar frá klukkan 21:00. Staðan verður endurmetin eftir klukkan níu í fyrramálið. Viðbúið er að fleiri leiðir geti lokast.

Spáð er miklum norðvestan vindi, sem verður mest syðst á Austfjörðum. Honum fylgir úrkoma sem fellur sem rigning eða slydda út við ströndina en snjókoma inn til landsins. Hvassast verður syðst á Austfjörðum en á móti eru taldar minni líkur á úrkomu sunnan Fjarðarheiðar.

Tilmælum hefur verið beint til íbúa og ferðafólks um að vera ekki á ferðinni að óþörfu, festa lausamuni og koma dýrum í skjól. „Þetta er veður sem er full ástæða til að taka alvarlega. Það minnir helst á vont vetrarveður, þótt að sumri sé,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.

„Við höfum hvatt fólk til að fylgjast vel með veðurspá og færð á vegum. Það er útlit fyrir að það verði lítið ferðaveður fyrr en á föstudag. Við ráðleggjum því fólki að vera lítið á ferðinni, sérstaklega ekki á kvöldin eða nóttinni. Yfir daginn er snjóbráð þannig að ástæður skána.“

Hann segir viðbragðsaðila, einkum Vegagerðina, hafa nýtt daginn til að undirbúa það sem koma skal.

Kynningu á skýrslu um kolefnisspor Austurlands, sem halda átti í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði á morgun, hefur verið frestað um viku.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.