Full fjármögnuð verkefni á Austurlandi bíða bara afgreiðslu þingsins

Fulltrúar Fjarðabyggðar og Fljótsdalshrepps skora á Alþingi að ljúka afgreiðslu margra mikilvægra mála sem snerta ýmis uppbyggingaráform á Austurlandi.

Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps og bæjarstjórn Fjarðabyggðar funduðu saman í gærdag en tilefnið var árleg yfirferð þeirra á sameiginlegum hagsmunamálum og samvinnuverkefnum. Meðal þeirra er uppbygging á grænum orkugarði í Fjarðabyggð en ráð er fyrir gert að rafmagn til þess mun koma úr Fljótsdalnum þegar að því kemur.

Í lok fundarins var afgreidd sameiginleg ályktun beggja aðila þar sem Alþingi er hvatt til að afgreiða skjótt mörg þau frumvörp sem bíða afgreiðslu og er forsenda þess að hægt verði að hefjast handa:

Fjarðabyggð og Fljótsdalshreppur skora á Alþingi að ljúka afgreiðslu mikilvægra mála sem bíða afgreiðslu þingsins. Uppbyggingaráform á Austurlandi þarfnast aðkomu stjórnvalda í formi lagasetninga og stefnumótunar. Full fjármögnuð verkefni á Austurlandi bíða afgreiðslu þingsins og hætta er á að uppbyggingin færist út fyrir landsteinana verði frekari dráttur á.

Skiptir þar mestu máli að þingið afgreiði stefnu um uppbyggingu á vindorku á Íslandi ásamt því að tryggja að sveitarfélög fái eðlilegt afgjald af raforkuframleiðslu sem fram fer í þeim. Austurland áformar uppbyggingu á orkugarði sem mun gera fjórðunginn að miðstöð orkuskipta með framleiðslu á vetni til að knýja fiskiskip og fragtskip bæði innanlands og utan. Þessi áform kalla á að lagaumhverfið sé skýrt og innviðir til staðar til að þessi mikilvægi þáttur orkuskipta innanlands gangi eftir.

Þá gera sveitarfélögin ráð fyrir talsverðri húsnæðisuppbyggingu gangi áformin eftir og mun það styrkja samfélagið allt á Austurlandi. Þá ítreka sveitarfélögin að þingið afgreiði önnur frumvörp sem varða hagsmuni sveitarfélaganna s.s. frumvarp um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, frumvarp um lagareldi og að við endurskoðun búvörusamninga sem nú eru að hefjast verði lögð sérstök áhersla á stuðning við fámenn landbúnaðarsvæði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.