Fullorðnum boðið upp á bólusetningu gegn mislingum

Byrjað er að taka á móti tímapöntunum fyrir fullorðna einstaklinga á Vopnafirði og Bakkafirði sem vilja bólusetningar gegn mislingum. Ekki hafa enn greinst fleiri tilfelli af sjúkdóminum á Norðausturlandi.

Síðasta laugardag var staðfesta að einstaklingur, búsettur á Þórshöfn, hefði greinst með mislinga. Sá hafði sótt þjóðahátíð sem haldin var á Vopnafirði sunnudaginn 14. apríl síðastliðinn.

Þar sem meðgöngutími mislinga er 1-3 vikur líður nokkur tími áður en öll hætta á útbreiðslu þeirra er liðin hjá. Þá eru veikindin lúmsk því fullfrískur einstaklingur getur smitað í allt að fjóra daga áður en hann fær fyrstu einkenni.

Árið 1976 hófst almenn bólusetning hérlendis gegn mislingum við tveggja ára aldur. Frá því um 1980 hafa tilfellin verið fátíð og með nokkurra ára millibili enda þátttaka í bólusetningunum um 90%. Þannig greindist í febrúar síðastliðnum tilfelli sem ekki náði frekari útbreiðslu.

Mislingar lifa þó enn góðu lífi víða erlendis þar sem ekki hefur náðst sami árangur í bólusetningum. Þess vegna hefur fólki sem hyggur á ferðalög erlendis verið ráðlagt að láta yfirfara bólusetningar sínar.

Íbúar hvattir til að huga að bólusetningum


Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur nú sent frá sér hvatningu til íbúa á Vopnafirði og Bakkafirði, sem fæddir eru á árunum 1975-1987, um að skoða bólusetningarstöðu sína gagnvart mislingum. Þeir geta bæði séð það á sínum bólusetningarskírteinum en einnig á Heilsuvera.is.

Full vörn gegn mislingum fæst ekki fyrr en eftir tvær bólusetningar. Einstaklingar sem ekki hafa fengið fulla bólusetningu geta pantað hana í síma 470-3001 milli klukkan 11-13 frá deginum í dag og út næstu viku. Bólusetningin er ókeypis.

Mislingar byrja líkt og hefðbundin flensa, með hita, slappleika og slíku en eftir 3-4 koma fram rauðir flekkir sem eru helsta einkenni sjúkdómsins. Einstaklingar með hvers konar einkenni eru hvattir til að halda sig til hlés. Hægt er að hafa samband við lækni í síma 1700 ef þörf er á.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.