Skip to main content

Fundað um kjaramál í álverinu hjá ríkissáttasemjara

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. apr 2025 10:36Uppfært 23. apr 2025 10:52

Samninganefndir AFLs starfsgreinafélags og Rafiðnaðarsambands Íslands annars vegar og Alcoa Fjarðaáls hins vegar funduðu í gær og aftur í dag hjá ríkissáttasemjara um nýjan kjarasamning starfsfólks frá Alcoa.


Verkalýðsfélögin vísuðu vinnudeilunni til sáttasemjara í byrjun apríl eftir árangurslausan fund. Fundað hefur verið af og til um nýja samninga síðan í desember en samningarnir losnuðu þann 1. mars síðastliðinn.

Undir félögin heyra nær allir starfsmenn í álverinu á Reyðarfirði sem koma að framleiðslunni. Utan við samningana stendur skrifstofufólk og sérfræðingar í öðrum félögum en einhverjir af þeim samningum taka þó mið af þeim samningum sem nú eru til umræðu.

Aðalsamninganefndir beggja aðila funduðu með Ástráði Haraldssyni, ríkissáttasemjara, á Egilsstöðum í gær. Fundur hófst aftur klukkan tíu í morgun en í dag stendur til að funda um afmörkuð málefni í minni hópum og fjölgar þá í samningahópunum. Lítið hefur enn þokast í samkomulagsátt.

Í gær voru hins vegar samþykktir tveir nýir samningar í stóriðjum á Grundartanga sem verið höfðu til meðferðar hjá ríkissáttasemjara, annars vegar í járnblendiverksmiðju Elkem og hins vegar álveri Norðuráls. Fyrri samningar þar voru felldir en þessir voru samþykktir með miklum meirihluta.