Fundað um nýtt framboð á Vopnafirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. mar 2022 15:35 • Uppfært 29. mar 2022 15:40
Boðað hefur verið til fundar um nýtt framboð til sveitarstjórnar, óháð stjórnmálaflokkum, á Vopnafirði í vikunni.
Í fundarboði kemur fram að ljóst sé að listar Betra Sigtúns og Samfylkingar bjóði ekki fram í kosningunum í maí.
Af því skapist bæði tilefni og brýn ástæða að stofna nýtt framboð þannig Vopnfirðingar hafi fleiri en einn kost í vor.
Listarnir tveir fengu samanlagt fjóra fulltrúa kjörna í kosningunum 2018. Betra Sigtún myndaði þá meirihluta með Framsóknarflokki, sem vinnur að sínum framboðslista en Samfylkingin varð í minnihluta.
Fundurinn verður í félagsheimilinu Miklagarði á fimmtudagskvöld. Ljóst er að hafa verður hraðar hendur þar sem frestur til að skila inn framboðum rennur út á hádegi á föstudaginn eftir viku, 8. apríl.